Handbolti

Rut og Ólafur á norðurleið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rut Jónsdóttir hefur verið í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu í mörg ár og fór með því á þrjú stórmót.
Rut Jónsdóttir hefur verið í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu í mörg ár og fór með því á þrjú stórmót. vísir/bára

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar er handboltaparið Rut Jónsdóttir og Ólafur Gústafsson á leið norður til Akureyrar frá Danmörku. Rut gengur í raðir KA/Þórs og Ólafur fer til KA.

Rut hefur leikið í Danmörku frá 2008, síðast með Esbjerg. Hún var danskur meistari með liðinu í fyrra. Auk Esbjerg hefur Rut leikið með Team Tvis Holstebro, Randers og Herning-Ikast. Hún hóf ferilinn með HK.

Ólafur hefur leikið með KIF Kolding síðan 2017 en hann kom til liðsins eftir stutt stopp hjá Stjörnunni. Ólafur er uppalinn FH-ingur og varð Íslandsmeistari með liðinu 2011. Hann fór síðan til Flensburg og vann Meistaradeild Evrópu með liðinu 2014. Ólafur lék svo í tvö ár með Aalborg.

Ólafur Gústafsson í leik með íslenska landsliðinu á HM 2019.vísir/getty

Ólafur er annar leikmaðurinn sem KA fær frá KIF Kolding en á mánudaginn skrifaði Árni Bragi Eyjólfsson undir tveggja ára samning við félagið. Auk þeirra hefur KA fengið færeyska landsliðsmarkvörðinn Nicholas Satchwell og hornamanninn Jóhann Geir Sævarsson. KA missti hins vegar Dag Gautason til Stjörnunnar.

Á síðasta tímabili endaði KA í 10. sæti Olís-deildar karla. KA/Þór varð í 6. sæti Olís-deildar kvenna og fór í bikarúrslit þar sem liðið tapaði fyrir Fram.


Tengdar fréttir

Árni Bragi til KA

Mosfellingurinn Árni Bragi Eyjólfsson leikur með KA næstu tvö árin.

KA fær landsliðsmarkvörð

Handknattleiksdeild KA hefur fengið liðsstyrk fyrir næsta vetur með komu markvarðarins Nicholas Satchwell. Satchwell sem er fæddur árið 1991 er landsliðsmarkvörður Færeyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×