Körfubolti

Landsliðskona í körfubolta í 1. deild bandaríska háskólakörfuboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigrún Björg Ólafsdóttir í leik með Haukaliðinu á móti KR. Hún er dóttir Ólafs heitins Rafnssonar, fyrrum formanns KKÍ og fyrrum forseta FIBA Europe.
Sigrún Björg Ólafsdóttir í leik með Haukaliðinu á móti KR. Hún er dóttir Ólafs heitins Rafnssonar, fyrrum formanns KKÍ og fyrrum forseta FIBA Europe. Vísir/Bára

Sigrún Björg Ólafsdóttir hefur skrifað undir hjá University of Tennessee sem er frá borginni Chattanooga í suðausturhluta Tennessee fylkis við landamærin við Georgíufylki.

UTC liðið spilar í SoCon deildinni í bandaríska háskólaboltanum og er 1. deildarskóli sem hefur komist margoft í úrslitakeppni NCAA háskólaboltans. Sigrún er því að komast að hjá öflugu liði.

Sigrún Björg Ólafsdóttir sem hefur verið í íslenska landsliðinu síðustu misseri en hún fékk sitt fyrst tækifæri með landsliðinu sautján ára gömul.

„Velkomin í fjölskylduna, Sigrún,“ skrifaði nýi þjálfarinn hennar, Katie Burrows, á Twitter.

Sigrún Björg er fjölhæfur bakvörður og öflugur varnarmaður. Hún getur bæði leyst stöðu leikstjórnanda og stöðu skotbakvarðar.

Sigrún Björg Ólafsdóttir var með 7,1 stig, 3,3 fráköst og 3,0 stoðsendingar að meðaltali með Haukaliðinu í Domino´s deildinni í vetur.

Þrátt fyrir að vera bara átján ára gömul (verður nítján í sumar) þá hefur hún spilað fjögur tímabil í efstu deild og á alls að baki 108 deildarleiki og 512 stig í Domino´s deildinni.

Sigrún fékk mjög stórt hlutverk hjá Haukaliðinu þegar Haukar urðu síðast Íslandsmeistarar vorið 2018.

Sigrún hefur leikið 7 leiki fyrir A-landsliðið og 30 leiki fyrir yngri landsliðin, 17 fyrir sextán ára liðið og 13 fyrir átján ára liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×