Skoðun

Lúsífer Kvaran

Starri Reynisson skrifar

Reglulega berast fréttir af nöfnum sem mannanafnanefnd íslenska ríkisins þykja ekki þóknanleg. Bæði er foreldrum meinað að nefna börn sín að vild og fólki bannað að ráða eigin nafni á fullorðinsárum. Þetta þykir mér bæði mikil og óþörf skerðing á frelsi einstaklingsins.

Nafn manneskju er innilega persónulegt, hvort sem um er að ræða eiginnafn, millinafn eða kenninafn. Nafngjöf foreldra til barns og ákvörðun fullorðins einstaklings að breyta sínu nafni eru hvort tveggja persónulegar ákvarðanir sem koma öðrum hreinlega ekki við. Afskipti ríkisins af svo persónulegum ákvörðunum eru illréttlætanleg. Þar ættu hefðir að gilda einu, líkt og við aðrar álíka persónulegar ákvarðanir eins og klæðaburð. Góðar hefðir eru lífseigar og þurfa ekki sérstaka vernd, lopapeysur og þjóðbúningar lifa ágætu lífi án afskipta ríkisnefndar og ég hef fulla trú á því að íslenskar nafnahefðir myndu gera það líka.

Það að banna nöfn vegna ótta við stríðni er svo hámark forræðishyggjunnar. Nýverið var nafninu Lúsífer til dæmis hafnað, ekki í fyrsta skipti, vegna þess að nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það gæti orðið nafnbera til ama. Ég velti því fyrir mér hvort nöfnunum Sauron, Melkor, Svarthöfði eða Voldemort yrði hafnað á sömu forsendum? Hvað þá með þegar rótgróin nöfn eins og Þengill og Katla? Í æsku var ég sjálfur talsvert hræddari við þau en nokkurn tímann Lúsífer.

Burtséð frá því hvort verið sé að gera upp á milli uppskáldaðra illmenna þá er þetta eineltisvarnahlutverk mannanafnanefndar óþarft. Það eru fjölmörg dæmi um að „venjuleg“ nöfn valdi nafnbera talsverðum ama. Vilji eitthvert foreldri þess fyrir utan raunverulega skíra barnið sitt Hitler Sataníus Vondikall, Voldemort Svarthöfði Zedong eða Lúsífer Kvaran þá ætti það frekar heima hjá barnavernd, eigi opinber afskipti yfir höfuð að vera til staðar. Velji fullorðinn einstaklingur hins vegar að ganga undir slíku nafni ætti viðkomandi eingöngu að þurfa að eiga það við sjálfan sig.

Höfundur er forseti Uppreisnar.

Þessi grein er birt í samstarfi við Róm Rómur er vettvangur fyrir ungt frjálslynt fólk til þess að láta að sér kveða í samfélagsumræðunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Núna er næst!

Bjarney Bjarnadóttir,Jóhanna M. Þorvaldsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.