Lífið

Agndofa yfir matnum á Íslandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Claudia Winkelman.
Claudia Winkelman. Vísir/Getty

Breska sjónvarpsstjarnan Claudia Winkelman er, líkt og Vísir greindi frá í gær, stödd hér á landi. Hún birti seint í gærkvöldi myndir af kvöldmatnum sem hún gæddi sér á og lofaði réttina í hástert. Þá sagðist hún aldrei ætla að snúa aftur heim.

„Ég veit ekki hvað er að gerast en hér erum við. Ég hef aldrei tekið myndir af mat áður en þetta er ekki eðlilegt. Stökkir hlutir (einhverjir nefndu þorsk), besta smjör sem ég hef fengið (það er þeytt, ég er ekki að grínast),“ skrifar Winkelman í færslu sem hún birti á Instagram seint í gærkvöldi.

Hún virðist þar stödd á veitingastaðnum Moss Restaurant í Bláa lóninu og birti hverja myndina á fætur annarri af réttunum sem reiddir voru fram.

„Ég ætla aldrei að koma heim. (Er þetta rétti tíminn til að benda á að við höfum drukkið örlítið vín). Góða nótt. Og gifstu mér, Ísland,“ bætti Winkelman við.

Winkelman er stödd hér í fríi ásamt fjölskyldu sinni en hún birti myndir af sextán ára syni sínum á Instagram í gær. Hún kvað soninn hafa óskað eftir „óvenjulegu“ fríi – og Ísland varð fyrir valinu.

Winkelman stýrir raunveruleikaþættinum Strictly Come Dancing, breskri fyrirmynd hinnar íslensku þáttaraðar Allir geta dansað sem sýnd er á Stöð 2. Hún er tekjuhæsta konan sem starfar hjá BBC.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×