Körfubolti

Lakers réði illa við fjarveru LeBron í uppgjöri toppliðanna

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Úr stórleiknum í nótt.
Úr stórleiknum í nótt. vísir/getty

Fimm leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í Bandaríkjunum í nótt en þar er spilað þétt yfir jólahátíðina. 

LeBron James var fjarri góðu gamni í toppslag Vesturdeildarinnar þar sem Denver Nuggets kom í heimsókn til Los Angeles Lakers. Óhætt er að segja að Lakers hafi saknað James þar sem Nuggets vann frekar öruggan sigur, 104-128. Lakers eftir sem áður á toppi Vesturdeildarinnar en Denver kemur í humátt á eftir.

Paul Millsap var stigahæstur í liði Nuggets með 21 stig en Anthony Davis fór mikinn í liði Lakers með 32 stig og 11 fráköst.

Í Toronto var sömuleiðis stórleikur þar sem Dallas Mavericks var í heimsókn hjá Raptors en Dallas menn léku án sinnar skærustu stjörnu þar sem Luka Doncic var fjarverandi vegna meiðsla. Úr varð hörkuleikur þar sem heimamenn unnu að lokum þriggja stiga sigur, 110-107.

Toppliðin í Austurdeildinni unnu bæði sína leiki þar sem Boston Celtics sigraði Charlotte Hornets örugglega líkt og Milwaukee Bucks gerði gegn Indiana Pacers.

Úrslit kvöldsins


Oklahoma City Thunder 118-112 Los Angeles Clippers

Toronto Raptors 110-107 Dallas Mavericks

Boston Celtics 119-93 Charlotte Hornets

Milwaukee Bucks 117-89 Indiana Pacers

Los Angeles Lakers 104-128 Denver Nuggets

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×