Körfubolti

Pavel: Verð að koma boltanum oftar ofan í körfuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pavel í baráttu við Michael Craion og Helga Má Magnússon.
Pavel í baráttu við Michael Craion og Helga Má Magnússon. vísir/vilhelm

Pavel Ermonlinskij lék sinn fyrsta leik í búningi Vals í DHL-höllinni í kvöld. Hann sótti þó ekki gull í greipar sinna gömlu félaga því KR vann ellefu stiga sigur, 87-76.

„Þetta eru mikil vonbrigði. Við þurftum á sigri að halda en töpuðum,“ sagði Pavel í samtali við Vísi eftir leik.

Hann sagði að ýmislegt hafi vantað upp á hjá Val í kvöld.

„KR-liðið er takmarkað í dag en þetta er það sem þeir geta, skotið fyrir utan og þeir fengu að gera það í dag. Í sókninni vantaði okkur nokkrar körfur,“ sagði Pavel sem hitti aðeins úr tveimur af ellefu skotum sínum í leiknum. Hann tók þó 18 fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

„Ég verð aldrei stigakóngur í þessari deild en fjandinn hafi það, ég verð að koma boltanum oftar ofan í körfuna.“

Valur hefur tapað sex leikjum í röð og er í 10. sæti Domino‘s deildarinnar.

„Auðvitað er minna sjálfstraust en þegar við vinnum. Við erum að tapa og menn eru fljótir að detta niður þegar það gengur illa. Það er minna sjálfstraust í liðinu en þú færð það ekki nema með sigrum. Þetta er vítahringur. Þú þarft sjálfstraust til að vinna og þú færð sjálfstraust með því að vinna,“ sagði Pavel.

En hvernig var að spila á gamla heimavellinum, á móti liðinu sem Pavel vann sjö Íslandsmeistaratitla með?

„Það var fínt, gaman. Þetta var ekki jafn tilfinningamikið og fólk myndi halda. Ég nálgaðist leikinn bara út frá því að mig langaði í sigur, hvort sem það var á móti KR eða grænlenska landsliðinu. Ég pældi ekkert í því hvar ég var að spila,“ sagði Pavel að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×