Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Keflavík 86-70 | Haukar með sannfærandi heimasigur

Árni Jóhannsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. vísir/daníel
Haukar tóku á móti Keflavík í 8. umferð Dominos deildar karla í körfuknattleik fyrr í kvöld. Leikurinn fór fram í Ólafssal á Ásvöllum og er óhætt að segja að lið sem eiga eftir að koma hingað eiga ekki þægilegt kvöld í vændum. Haukar fóru með sigur af hólmi 84-67 og á köflum létu þeir topplið Keflavíkur líta út eins og lið í fallbaráttu.

Heimamenn byrjuðu af fítonskrafti og skoruðu fyrstu sex stig leiksins og léku gríðarlega góðan varnarleik en gestirnir úr Keflavík skoruðu ekki stig utan af velli fyrr en að tæpar þrjár mínútur voru liðnar og litu út fyrir að vera sofandi. Haukar hittu vel og voru með mikið sjálfstraust og endaði fyrsti leikhluti með 11 stiga forskoti heimamanna 27-16.



Gestirnir vöknuðu aðeins til lífsins í öðrum leikhluta án þess þó að ná að saxa forskot heimamann niður og leiddu Haukar enn með 11 stigum í hálfleik en hefðu vel getað verið með meira forskot. Staðan 45-34 í hálfleik og eitthvað mikið þurfti að gerast til að gestirnir ættu möguleika á að fá eitthvað út úr leiknum.



Keflvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn mikið betur en heimamenn og náðu að saxa forskotið niður í fjögur stig en lengra komust þeir ekki. Hvorki í þriðja leikhluta né þeim fjórða. Haukar gengu á lagið í lok leiksins þegar Deane Williams var farinn út af með fimm villur en þá fékk Flenard Whitfield t.d. að ráfa inn í teig og taka sóknarfráköst í gríð og erg og lauk leiknum með 16 stig sigri heimamanna, 86-70. Sigurinn var sannfærandi og eins og áður segir þá líður Haukum augljóslega mjög vel á heimavelli.



Afhverju unnu Haukar?

Þeim einfaldlega langaði meira í stigin tvö sem í boði voru og þeir tóku þau. Spiluðu á sínum styrkleikum á báðum endum vallarins og leyfðu Keflvíkingum ekki að njóta sín. Ávallt þegar Keflvíkingar náðu í stemmningskörfur voru Haukar mættir með svar að bragði og neistinn náði aldrei að kvikna hjá gestunum.

Bestir á vellinum?

Það framlag úr mörgum áttum frá Haukum í kvöld en framherjarnir Gerald Robinson og Flenard Whitfield voru bestir á vellinum í kvöld og fengu mjög góða hjálp frá Kára Jónss. og bekknum sem skilaði 27 stigum.

Gestunum vantaði framlag frá fleiri mönnum en á meðan Deane Williams naut þá var hann að skila sínum hefðbundna góða leik ásamt Herði Axel Vilhjálmssyni.



Hvað gekk illa?

Verðum við ekki að segja að Keflvíkingum gekk illa yfir höfuð. Þeir söknuðu augljóslega Dominykas Milka en það eru 12 manns á skýrslu hverju sinni og þeir mega ekki verða svona litlir í sér þegar besta manninn vantar.

Tölfræði sem vakti athygli?

Vert er að benda á að 49 villur voru dæmdar í leiknum. Það hallaði á hvorugt lið en fyrir vikið þá tók leikurinn rosalega langan tíma og fékkst ekkert flæði í hann. Það skal ósagt látið að hvort það hafi verið dómararnir sem voru vanstilltir eða leikmennirnir.

Hvað næst?

Keflvíkingar fá viku til að sleikja sárin og fá Fjölni í heimsókn en þar er sýnd veiði en ekki gefin fyrir heimamenn. Það eru tengingar milli liðanna en Hjalti og bróðir hans Hörður Axel eru Fjölnismenn að upplagi á meðan Falur Harðarson er goðsögn úr Keflavík. Það ætti að vera spennandi.

Haukar þurfa að keyra Reykjanesbrautina og fara í heimsókn til Njarðvíkinga. Bæði lið eru á fínu skriði en þetta er útileikur þannig að Haukar þurfa að brjóta trendið til og ná upp góðum leik ætli þeir sér sinn fyrsta útisigur.

Hjalti Vilhjálmss.: Alltaf opið fyrir Gunnar í Keflavík
Hjalti ræðir við sína menn í kvöld.vísir/daníel
Þjálfari Keflvíkinga var skiljanlega súr eftir leik en hann var spurður að því hvernig væri hægt að útskýra leik og þar með úrslit Keflvíkinga í kvöld á móti Haukum.

„Til að byrja með mætum við ekki í leikinn, vorum arfaslakir og flatir í byrjun. Sóknarlega ragir og týndir og varnarlega fengur þeir þær stöður sem þeir vildu og það er eiginlega fráleitt að mæta svona til leiks“.

Dominykas Milka var ekki með Keflvíkingum í kvöld og var hans, skiljanlega, sárt saknað en var söknuðurinn of mikill.

„Það sjá það allir að hann er einn sá besti í deildinni og það er munur að hafa hann í liðinu en við verðum að gera miklu betur en þetta“.

Hjalti vildi ekki fara út í að ræða dómarana of mikið en það var mikið flautað í kvöld og sagði hann að menn væru náttúrlega ekki alltaf sammála en svona væri leikurinn bara. Hann var þá spurður að því hvort hann hefði ekki viljað fá meiri anda frá sínum mönnum eftir fyrsta tap þeirra.



„Við komum vel út í seinni hálfleiks og það var mikill andi og barátta og við vorum árásargjarnir eins og við ætluðum að vera í allt kvöld. Svo þegar maður fer að skipta liðinu þá dettur það niður og það verða menn að taka til sín og gera betur“.



Að lokum var Hjalti spurður út í fréttirnar að Gunnar Ólafsson, sem spilaði með Keflavík í fyrra, var laus allra mála frá Oviedo og hvort hann væri búinn að hafa samband við hann.



„Ég hafði samband við hann í morgun en við erum fínir félagar enda þjálfaði ég hann upp alla yngri flokkana. Ég hafði samt samband í raun og veru án þess að vita hvernig staðan hans væri og að hann væri laus. Ég var aðeins að klappa honum á bakið og hughreysta hann og segja honum að halda áfram. Auðvitað lætur maður hann vita að það er alltaf opið fyrir hann í Keflavík en númer eitt tvö og þrjú var ég að hughreysta og peppa hann“.

Flenard Whitfield: Verður ógnvænlegt ef heimavallarárangurinn heldur áfram
Flenard var öflugur í kvöld.vísir/daníel
Miðherji Hauka, Flenard Whitfield, átti skínandi leik á móti Keflavík í kvöld þegar Haukar tóku á móti Keflvíkingum í 8. umferð Dominos deildar karla. Hann skoraði 19 stig og tók 11 fráköst í sannfærandi sigri. Hann var spurður að því hvað Haukar gerðu rétt.

„Vörnin var það sem við gerðum rétt. Við unnum mikið í vörn og líkamlegu ástandi og hvernig við ættum að hreyfa okkur á móti þeim og ætluðum við að reyna að skapa það að þetta væri varnarlið. Það vita allir að við getum skorað og erum með mikið af skyttum en við viljum fara að stöðva hin liðin ásamt því að skora vel“.



Haukar hafa ekki tapað leik í Ólafssal en þeir hafa spilað fimm leiki hingað til og skorað að meðaltali nálægt 100 stigum í hverjum leik. Flenard var inntur eftir því hvað það væri sem gerði það að verkum að hans mönnum liði svona vel á heimavelli“.



„Ég veit ekki hvað það er. Allir sigurleikirnir okkar hafa komið hérna en við erum að vinna í að ná í sigur á útivelli en ef þetta gengur svona áfram þá verðum við ógnvænlegir“.



Flenard gekk vel í leiknum í kvöld og þá sérstaklega í lok leiksins þegar hann fékk nóg pláss til athafna sig í teig andstæðingsins en hann náði í fimm sóknarfráköst í leiknum og kom karfa nánast alltaf í kjölfarið frá honum.



„Þegar maður er á móti svona góðu liði eins og Keflavík og er yfir á loka andartökunum þá þarf maður að sanna sig. Svo verður maður að vera fyrirmynd fyrir meðspilara sína og leiða þá í átt að sigrinum“.



Keflvíkingar náðu muninum niður í fjögur stig í þriðja leikhluta og var Flenard spurður að því hvort það hafi farið um hans menn á þeim tímapunkti.



„Ef þú hefur séð okkur þá hafa þriðju leikhlutarnir verið slæmir hjá okkur, alltaf byrjum við kaldir og töpum boltanum eða klikkum á skotunum. Við erum vanir því núna og komum okkur í gegnum þennan kafla og klárum vel. Það er kostur liðsins okkar að við erum með unga menn hérna sem átta sig á veikleikum sínum og við berjumst í gegn um slæmu kaflana og látum ekkert pirra okkur“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira