Handbolti

Jafnt í fyrri leik Vals og Bregenz

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magnús Óli skoraði níu mörk.
Magnús Óli skoraði níu mörk. vísir/daníel

Valur og Bregenz gerðu jafntefli, 31-31, í Austurríki í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu í kvöld. Liðin mætast aftur á morgun en hann fer einnig fram ytra. Leikurinn í dag var heimaleikur Vals.

Magnús Óli Magnússon var markahæstur Valsmanna með níu mörk. Vignir Stefánsson og Finnur Ingi Stefánsson skoruðu fimm mörk hvor. Josip Juric-Grgic, sem varð Íslands- og bikarmeistari með Val 2017, skoraði átta mörk fyrir Bregenz.

Fyrri hálfleikurinn var gríðarlega jafn. Undir lok hans náði Bregenz þó góðu áhlaupi og skoraði þrjú mörk í röð. Finnur Ingi minnkaði muninn hins vegar í tvö mörk, 14-16, með síðasta marki fyrri hálfleiks.

Valur byrjaði seinni hálfleikinn miklu betur og komst fjórum mörkum yfir, 22-18. Bregenz átti þá góðan kafla, jafnaði og lokamínúturnar voru æsispennandi.

Valur komst tveimur mörkum yfir, 30-28, en Bregenz skoraði tvö mörk í röð og jafnaði.

Anton Rúnarsson kom Val yfir úr vítakasti, 31-30, en Bregenz jafnaði úr vítakasti. Lokatölur 31-31.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.