Handbolti

Rúnar: Vorum nær tveimur stigum en einu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar og Stjörnustrákarnir hans eru í 10. sæti Olís-deildar karla.
Rúnar og Stjörnustrákarnir hans eru í 10. sæti Olís-deildar karla. vísir/bára
Rúnar Sigtryggson, þjálfari Stjörnunnar, var mátulega sáttur eftir jafnteflið við FH, 26-26, í Kaplakrika í kvöld.

„Þetta var bara eins og síðustu leikir. Þetta er sama tilfinning. Þetta er fjórði leikur okkar í röð þar sem úrslitin ráðast á síðustu sekúndunum,“ sagði Rúnar í samtali við Vísi eftir leik.

„Maður verður líka að segja það að við erum að spila betur og sýna framfarir. En við þurfum að klára leikina.“

Stjarnan spilaði mjög vel í fyrri hálfleik og var fjórum mörkum yfir eftir hann, 13-17.

„Fyrri hálfleikurinn var mjög góður og það hafa verið góðir kaflar í okkar leikjum. Við misstum Brynjar Darra [Baldursson] í fyrri hálfleik og spiluðum þá á fjórða markverði [Ólafi Rafni Gíslasyni]. Hann kom kaldur inn á og stóð sig eins vel og hann gat,“ sagði Rúnar.

„Óli Bjarki [Ragnarsson] meiddist síðan og þá fannst mér flott hjá strákunum að klára þetta svona og vera frekar nær tveimur stigum en einu.“

Stjörnunni hefur gengið afar illa að halda forystu í leikjum sínum í vetur og oft farið illa að ráði sínu. En leggst þetta þungt á leikmenn liðsins?

„Eða við viljum hafa leikina spennandi. Það fer eftir því hvernig þú horfir á það,“ sagði Rúnar léttur.

„Við erum orðnir smá vanir þessu og ég held að við lærum með tímanum hvað þarf að gera.“

Ólafur Bjarki og Brynjar Darri fóru meiddir af velli. En hver er staðan á þeim?

„Ég sá bara að hnén voru vafin og það boðar aldrei gott,“ sagði Rúnar að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×