Skoðun

Fram­tíðar­fólk og aftur­halds­seggir

Þröstur Friðfinnsson skrifar
Þingsályktunartillaga um málefni sveitarfélaga, grein V.

Að horfa til framtíðar

Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, ritaði á dögunum ágæta grein þar sem hún hvetur sveitarstjórnarmenn til að horfa til framtíðar. Hún vill ekki kyrrstöðu, heldur „snúa vörn í sókn“. Lausn hennar er einföld, „að efla og styrkja sveitarfélög á landsbyggðinni með stækkun þeirra og sameiningum“. Þá nefnir hún að „flækjustig í samstarfi sveitarfélaga“ t.d. í byggðasamlögum geti ekki gengið til framtíðar, því verði sveitarfélög að stækka og tækifærin til sameiningar og sóknar beri að grípa.

Á aukalandsþingi Sambandsins fór formaðurinn einnig yfir í ræðu sinni, hve hægt hefði miðað í þessum efnum, en nefndi þó að sumstaðar hefði sem betur fer tekist að sameina sveitarfélög í öflugar einingar sem hafi stuðlað að atvinnusköpun og framþróun fyrir íbúana. Nefndi hún þrjú dæmi um slíkar undantekningar, öflug sameinuð sveitarfélög með aukinn slagkraft, Fjarðabyggð, Norðurþing og Sveitarfélagið Skagafjörð. Fróðlegt er að skoða þetta aðeins nánar og líta til íbúaþróunar eftir þessar sameiningar, en allar upplýsingar um hana er að finna á vef Hagstofunnar.



Íbúaþróun

Fjarðabyggð hefur sameinast í áföngum en þar er ein stórframkvæmd svo afgerandi að varla er hægt með góðu móti að skoða íbúaþróun í tölum á þessari öld, svo marktækt sé. Þó er ljóst að þar hefur orðið fjölgun á miðsvæðinu, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði, sem kemur ekki á óvart. Stöðnun hefur hins vegar verið í íbúafjölda í norðuhlutanum og veruleg fækkun í suðurhluta sveitarfélagsins.

Frá því að Norðurþing varð til 2006, hefur fjölgað í sveitarfélaginu um 31 íbúa, eða um 1% á 13 árum. Að vonum hefur heldur fjölgað á Húsavík í seinni tíð, en önnur mynd blasir við á jaðarsvæðum sveitarfélagsins. Á þessum tíma hefur fækkað um 13,6% á Kópaskeri og fækkað um heil 26,3% á Raufarhöfn.

Sveitarfélagið Skagafjörður varð til á miðju ári 1998. Frá 1. janúar 1999 til 1. janúar 2019 hefur íbúum hins öfluga sameinaða sveitarfélags þó fækkað um 5,25%. Á Sauðárkróki hefur á þessum 20 árum fjölgað um 1 íbúa, en umtalsverð fækkun verið í sveitunum og 29% fækkun á Hofsósi.

Ég deili ekki hrifningu formannsins yfir þróun þessara öflugu sameinuðu sveitarfélaga, lái mér hver sem vill. Á sama tíma finnast sveitarfélög sem hafa dafnað all bærilega ein og sér.  Sem hafa hafnað staðfastlega öllum sameiningartillögum. Eru jafnvel einnig flækt í samstarf sveitarfélaga í byggðasamlögum.  Er þeim kannski bara stjórnað af afturhaldsseggjum? 

Dæmi um slíkt sveitarfélag er Hveragerði.  Á tuttugu ára líftíma sameinaðs Skagafjarðar hefur hið sjálfstæða og ósameinaða sveitarfélag Hveragerði þróast með gerólíkum hætti.  Þar hefur íbúum nefnilega fjölgað úr 1.714 í 2.628, eða um heil 53,3%.  Þar ríkir ekki kyrrstaða eða afturför og nýverið bárust fréttir af því að íbúatalan hefði nú náð yfir 2.700. Hvernig rímar þetta nú allt við orð formannsins um öflug sameinuð sveitarfélög og hin sem eftir sitja og sjá ekki möguleikana til framtíðar í sameiningum??



Byggðaþróun

Það er nefnilega þannig að sameiningar eða ekki sameiningar sveitarfélaga, hafa ósköp lítið með byggðaþróun að gera.  Þar eru aðrir kraftar að verki og Aldís fer rétt með þegar hún segir að reka þurfi „öfluga byggðastefnu, sem styrkir nútíma búsetuskilyrði um allt land“. Við höfum bara ekki gert það til þessa og ekki sér breytingu þar á. Það er ekki náttúrulögmál að íbúar flytji í suður og vestur, það er bein afleiðing langvarandi stefnu stjórnvalda um samþjöppun fjármagns, valds og þjónustu.

Nú kunna menn að segja að ef t.d. Raufarhöfn og Kópasker hefðu ekki sameinast Húsavík í Norðurþingi, hefði þróunin þar bara orðið enn verri. Mögulega er það rétt ef sama byggðastefna hefði verið rekin. En það eru til aðrar leiðir, leiðir sem hefðu getað unnið gegn þessari hnignun.  Við horfum gjarna til nágranna okkar í Evrópu þegar við innleiðum ýmsar íþyngjandi reglur, en höfum minna horft til þeirra með hvernig hægt er að styrkja byggðir á jaðarsvæðum. Er það kannski raunverulega stefnan, að stórir hlutar landsins leggist í eyði? Alla vega fer illa saman tal um að styrkja búsetu sem víðast og sú þróun sem við horfum upp á síðustu áratugi.



Hvað þarf til?

Til að viðhalda byggð þarf í raun tvennt til, lífvænlegt atvinnulíf, og ásættanlega grunnþjónustu.  Þar vegur þyngst heilbrigðisþjónusta og menntun. Fyrir tveim áratugum voru sameinuð sjúkrahúsin á Höfðuborgarsvæðinu í Landsspítala – háskólasjúkrahús. Frá þeim tíma hefur vægi heilbrigðisþjónustu landsins verið markvisst fært á þann eina stað, en skorin niður þjónusta út um allt land. Flogin eru að jafnaði 2 sjúkraflug á dag, mest með sjúklinga þangað. Það er kannski ekki tilviljun að á sama tíma eflist byggðin á svæðinu frá Selfossi upp á Akranes. Þetta er svæðið sem er í seilingarfjarlægð við þessa grunnþjónustu.

Þessi þróun hefur leitt af sér að mönnun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni verður æ erfiðari, meira að segja á Akureyri er mönnun lækna á heilsugæslu vandamál. Hitt er ekki síður afleitt, hve illa hefur gengið að reka þjóðarsjúkrahúsið okkar þennan tíma. Er ekki hugsanlegt, að það sé kannski bæði skilvirkara og auðveldara að reka minni einingar? Að kannski sé lausnin einmitt ekki að sameina? Þrátt fyrir viðvarandi rekstrarvanda og jafnvel einnig stjórnunarvanda LSH, sér enga breytingu á stefnu stjórnvalda um sameiningar stofnana.

En eins og fyrr sagði, það eru til leiðir sem virka, við þurfum ekki að finna upp hjólið. Við þurfum að færa heilbrigðisþjónustuna aftur nær íbúum landsins, við þurfum að byggja upp fleiri öflug sjúkrahús, þó ekki nema bara vegna áhættu af því að hafa mest alla starfsemi á einum stað, og það á eldvirku svæði. Eitt skref væri t.d. að gera Sjúkrahúsið á Akureyri að háskólasjúkrahúsi, tengt Háskólanum á Akureyri. Við erum að taka sömu áhættu með alþjóðaflugið, uppbygging á aðeins einum stað hamlar eðlilegri þróun í ferðaþjónustu. Við þurfum að fara í alvöru uppbyggingu á fleiri stöðum en í Keflavík og fá jafnari dreifingu ferðamanna um landið.

Við þurfum að reka markvissa atvinnustefnu, sem byggir undir atvinnu á jaðarsvæðum. Byggðastofnun á ekki bara að skrifa skýrslur. Hún gæti t.d. ábyrgst hlutafjárframlög til fyrirtækja á jaðarsvæðum, lagt til hlutafé og rekstrarráðgjöf og veitt styrki til nýsköpunar og uppbyggingar. Við getum ívilnað fyrirtækjum á jaðarsvæðum í gjöldum, t.d. fellt niður tryggingagjald til lengri eða skemmri tíma. Við getum bundið kvóta varanlega við byggðir. Við getum stýrt sauðfjárrækt inn á jaðarsvæði með beitarþolið land. Við getum flutt ríkisstofnanir og störf út á land, sem er raunar eitt af markmiðum í þingsályktunartillögu um sveitarfélög, en því miður eru ekki markvissar tillögur þar um, hvorki eru þær tölusettar eða tímasettar, svo sem er um íbúafjöldann.

Við getum gert eftirsóknarvert fyrir nýútskrifað háskólafólk, s.s. í heilbrigðisgeiranum, að búa út um landið. Með niðurfellingu námslána í áföngum við búsetu, t.d. 5 - 10% af höfuðstóli við hvert ár sem búið er á skilgreindum svæðum. Við getum einnig lækkað tekjuskatt á jaðarsvæðum og með þessum aðgerðum gert búsetu eftirsóknarverðari fjárhagslega. Menntakerfið er betur skipulagt og trúi ég að þar séu minni vandamál sem þarf að leysa varðandi byggðaþróun en í heilbrigðiskerfinu. Menn kunna að segja að þessar aðferðir fari ekki vel með opinbert fé, en er það svo? Talað hefur verið um að setja jafnvel 15 milljarða í framlög til sameiningar sveitarfélaga, algerlega ómarkvisst, er það betri nýting fjár? Ætli Raufarhöfn hafi ekki skilað bærilega til þjóðarbúsins síðustu öldina eða svo og eigi kannski eitthvað inni?



Sókn til framtíðar

Við getum vel snúið vörn í sókn, fyrir landsbyggðina og fyrir Ísland allt um leið.  Vilji er allt sem þarf. Að óbreyttu stefnir í áframhaldandi samþjöppun byggðar á Suðvesturhorninu. Með nokkrum sæmilegum byggðakjörnum út um landið, en stórum svæðum í eyði innan tiltölulega skamms tíma.  Það er ekki spennandi framtíðarsýn, að Ísland verði í raun verstöð. Með nokkrum stóriðjum á stangli sem nýta orkuauðlindina, örfáum stórfyrirtækjum sem nýta fiskveiðiauðlindina og þorri íbúa hrúgist á einn stað. 

Það eru mikil lífsgæði fólgin í búsetu víða um land, í nálægð við náttúru og gjöfular auðlindir. Þó ferðamönnum þyki magnað að sjá auðnir og óbyggðir, þykir þeim ekki síður gefandi að fara um fjölbreyttar lifandi byggðir. Horfum til framtíðar með raunsæjum hætti, beitum aðferðum sem virka, byggjum upp sjálfbærar og lífvænlegar byggðir um land allt. Þannig mun þjóðinni vel farnast. Sameiningar sveitarfélaga einar og sér hafa hér nánast engin áhrif eins og dæmin sanna.

Höfundur er sveitarstjóri Grýtubakkahrepps.


Tengdar fréttir

Lýð­ræðið, lög­fræðin og of­beldið

Í þingsályktunartillögu um málefni sveitarfélaga, er mikið talað um lýðræði, virðingu, sjálfbærni og sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og er það vel.

Rétt og rangt um þjónustu

Það er grafalvarlegt mál fyrir okkur sem stöndum að rekstri lítilla sveitarfélaga, þegar ráðamenn fullyrða margítrekað að við séum ekki að veita íbúum okkar þá þjónustu sem okkur ber að gera að lögum.

Hag­ræðing eða þjónusta?

Nú nýverið kom út skýrsla sem unnin var að ósk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Öflugri sveitarfélög – væntur ávinningur við sameiningu sveitarfélaga m.v. 1.000 íbúa að lágmarki. Ekkert er óljóst um tilganginn með skýrslunni, hann er að byggja enn frekar undir stefnu stjórnvalda um stækkun sveitarfélaga.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×