Bitcoin-málið hefur vakið heimsathygli og vakti strok Sinda ekki síst mikla athygli. Ítarlega var fjallað um málið í fjölmiðlum hér á landi, sem og erlendis. Varðaði það stórfelldan þjófnað á tölvubúnaði úr þremur gagnaverum, tveimur í Reykjanesbæ og einu í Borgarnesi í desember 2017 og janúar 2018. Tölvurnar voru notaðar til að grafa eftir rafmyntinni Bitcoin og hefur búnaðurinn enn ekki skilað sér.
Átti að fá fimmtán prósent til frambúðar
Í viðtalinu við Vanity Fair er hinn alþjóðlegi huldumaður nefndur Herra X og segir Sindri að hann hafi lofað sér fimmtán prósent af tekjunum sem búnaðurinn myndi skila við Bitcoin-gröftinn. Reiknaði Sindri með að fá allt að 1,2 milljónir dollara á ári, um 150 milljónir, til frambúðar.„Þetta varð bara að gerast,“ segist Sindri hafa hugsað með sjálfum sér. „Ég er til í að fara í fangelsi fyrir þetta, svona gerist bara einu sinni á ævinni.“
Sjá einnig: GQ fjallar ítarlega um Bitcoin-málið: „Ég vildi bara gefa þeim fingurinn“
Og í fangelsi fór hann en Sindri var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsisvisti fyrir aðild sína að málinu. Í viðtalinu segir Sindri að ekki hafi verið hægt að segja nei við hinn alþjóðlega og dularfulla glæpamann sem Sindri hefur haldið fram að sé höfuðpaur málsins.

Lögreglustjórinn segist ekki trúa á álfa og tröll
Aðspurður um þennan dularfulla Herra X segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, að hann trúi ekki á álfa og tröll, ólíkt mörgum Íslendingum.Grein Vanity Fair er nokkuð ítarleg og fer meðal annars yfir það sem kveikti áhuga erlendra fjölmiðla á málinu á sínum tíma. Sindri strauk úr fangelsi og komst úr landi með áætlunarflugi til Stokkhólms, nokkrum sætaröðum framar sat Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Við spjölluðum ekki saman,“ segir Sindri í viðtalinu. „Ég var að reyna að fara huldu höfði.“
Í greininni segir einnig að sé Herra X til þá sé ljóst að hann leiki lausum hala, líkt og búnaðurinn sem stolið var og hefur aldrei komið í leitirnar. Möguleiki sé á því að þær séu enn í gangi í einhverju vöruhúsi að grafa eftir Bitcoin.
„Kannski hafa tölvurnar verið í gangi allan tímann,“ segir Sindri. „Kannski veit ég hvar þær eru og kannski ekki.“