Körfubolti

Sjö leikir búnir og Kawhi Leonard fær aftur frí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Los Angeles Clippers ætlar að passa upp á álagið á Kawhi Leonard í vetur.
Los Angeles Clippers ætlar að passa upp á álagið á Kawhi Leonard í vetur. AP/Ben Margot
Kawhi Leonard sleppur við þráðbeinan samanburð við Giannis Antetokounmpo í kvöld því Los Angeles Clippers hefur ákveðið að gefa honum frí frá leik LA Clippers og Milwaukee Bucks.

Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee Bucks var kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð en Kawhi Leonard var kosinn mikilvægasti leikmaður lokaúrslitanna þar sem hann vann titilinn með Toronto Raptors.

Kawhi Leonard samdi síðan við Los Angeles Clippers í sumar. Margir voru eflaust spenntir að sjá þá takast á inn á vellinum en af því verður ekki að þessu sinni. Kawhi Leonard verður nefnilega hvíldur í leiknum í kvöld.





Öll lið þurfa að gefa upp ástæður fyrir því að leikmaður er ekki með og opinbera ástæðan er „injury/illness, load management (knee)“ eða „meiðsli/veikindi, stjórn á álagi (hné)“ eins og þar segir.

Þrátt fyrir að tímabilið sé nýhafið þá verður þetta annar leikurinn þar sem Kawhi Leonard er hvíldur.

Hann var heldur ekki með á móti Utah Jazz fyrir viku síðan. Spurning um hvort að Kawhi Leonard hafi samið um frí á miðvikudögum.

Los Angeles Clippers hefur unnið 5 af fyrstu sjö leikjum sínum en annar tapleikurinn kom einmitt í leiknum á móti Utah Jazz þar sem Kawhi Leonard fékk frí.





Kawhi Leonard er með 29,3 stig, 7,3 fráköst, 5,7 stoðsendingar og 2,3 stolna bolta að meðaltali í fyrstu sex leikjum sínum sem leikmaður Los Angeles Clippers.

Leonard hefur skorað yfir þrjátíu stig í síðustu þremur leikjum sínum og Clippers-liðið hefur unnið þá alla. Hann var með 27 stig og 10 stoðsendingar í eina tapleiknum sem var á moti Phoenix Suns.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×