Viðskipti innlent

Svona var samningurinn sem Seðlabankinn vildi alls ekki láta af hendi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásgeir Jónsson erfði málið frá Má Guðmundssyni forvera sínum.
Ásgeir Jónsson erfði málið frá Má Guðmundssyni forvera sínum. Fréttablaðið/Valli
Seðlabanki Íslands greiddi Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits hjá bankanum, rúmlega átján milljónir króna við starfslok hennar hjá bankanum árið 2016. Þetta kemur fram í samningi Seðlabankans við Ingibjörgu sem Fréttablaðið fékk loks afhentan eftir að dómur í málinu var kveðinn upp á föstudag.

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri á skrifstofu Seðlabanka Íslands, segir í samtali við Vísi að ákveðið hafi verið að áfrýja niðurstöðunni úr héraðsdómi ekki til Landsréttar. 

Samninginn má sjá hér að neðan.

Samningurinn sem Seðlabankinn afhenti í dag.
Stuðningur SÍ, til handa Ingibjörgu, fól í sér:

  • Heimild til leyfis frá störfum þar til námi lýkur
  • SÍ greiðir styrk vegna skólagjalda, bóka- og ferðakostnaðar, 4 milljónir 2016 og 4 milljónir 2017
  • SÍ greiðir 60% hlutfall mánaðar launa í tólf mánuði
Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að mánaðarlaun Ingibjargar hafi numið 1,4 milljón krónum. Samanlagt hafi því styrkurinn til hennar numið rétt rúmlega átján milljónum króna. 

Þá segir í samningnum að kjósi Ingibjörgu að hætta hjá Seðlabankanum í kjölfar námsins eigi Seðlabankinn enga kröfu á endurgreiðslu styrksins. Hún þurfi þó að segja upp með þriggja mánaða fyrirvara. 

Ár er liðið síðan Fréttablaðið óskaði fyrst eftir afriti af samningnum. Beiðninni var hafnað af bankanum og vísaði Fréttablaðið málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í sumar að bankanum bæri að afhenda samninginn. Seðlabankinn brást við þeirri niðurstöðu með því að höfða mál á hendur blaðamanni Fréttablaðsins í héraðsdómi. Var dómur kveðinn upp á föstudag.

Formaður Blaðamannafélags Íslands hefur gagnrýnt viðbrögð Seðlabankans í málinu harðlega.

Seðlabankinn leitaði ekki eftir afstöðu Ingibjargar varðandi það hvort afhenda ætti samninginn. Engu að síður vísaði bankinn til friðhelgi einkalífs við málsmeðferðina.Fréttablaðið/Valli

Vísuðu til friðhelgi einkalífsins

Samningurinn, sem dagsettur er 29. apríl 2016, var í dómi nefndur Samningur um stuðning við námsdvöl og leyfi frá störfum. Seðlabankinn bar því fyrir sig að upplýsingarnar sem þar voru að finna vörðuðu með beinum hætti fjárhagsmálefni Ingibjargar, sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt skuli fara.

Þannig vísaði bankinn til stjórnarskrárvarins rétts manna til friðhelgi einkalífs.

Ekki fengist séð að hagsmunir almennings af því að upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar vegi þyngra en þau réttindi Ingibjargar sem undir væru. Því bæri að fella úrskurðinn úr gildi.

Már Guðmundsson var Seðlabankastjóri þegar gerður var starfslokasamningur við Ingibjörgu.Vísir/Vilhelm

Ekki aðrar fjárhagsupplýsingar en föst launakjör

Í niðurstöðu dómsins er þessi röksemdafærsla bankans tekin sérstaklega fyrir. Vísað er í níundu grein upplýsingalaga þar sem fram kemur að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmál einstaklinga, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í málinu kom þó fram að bankinn leitaði ekki eftir afstöðu Ingibjargar til beiðni Ara.   

Bankinn mat það jafnframt svo að upplýsingarnar í skjalinu varði áðurnefnda grein upplýsingalaga með beinum hætti. Þá var fallist á það með bankanum að almennt væru upplýsingar um fjárhagsmálefni varðar af stjórnarskrá en um það gildi þó undantekningar.

Að mati dómsins var ekki að finna aðrar fjárhagsupplýsingar Ingibjargar í skjalinu en um föst launakjör hennar og því komi ákvæði upplýsingalaganna ekki til frekari álita við úrlausn málsins.

Arnar Þór Sverrisson, lögmaður Seðlabanka Íslands, í Héraðsdómi Reykjaness þegar málið var flutt í byrjun mánaðar.Vísir/vilhelm

Lykilfólk fékk styrki og bónusa

Fréttablaðið hefur áður greint frá því að sérhæfð verkefni og tímabundnar ráðningar hafi knúið stjórnendur Seðlabankans til að beita ýmsum ráðum til að halda í starfsfólk gjaldeyriseftirlitsins á árunum eftir að það var sett á fót í september 2009.

Ekki síst eftir að umræða um nauðsyn þess að losa fjármagnshöft magnaðist og starfsfólk gjaldeyriseftirlitsins varð meðvitaðra um að störfum þess í bankanum gæti lokið.

Í greinagerð Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, sem gætti hagsmuna Seðlabankans fyrir dómi, kemur fram að árið 2015 var sérstakur álags­toppur í starfi gjaldeyriseftirlitsins þegar gengið var frá uppgjöri slitabúanna. Ári síðar var haldið stórt útboð á aflandskrónum. 

Einar Þór Sverrisson lögmaður og Ari Brynjólfsson blaðamaður Fréttablaðsins við málflutning í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í mánuðinum.Vísir/vilhelm

Nam við Harvard á styrk frá Seðlabankanum

„Mæddi þá mikið á Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins, en hún var einnig fulltrúi bankans í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta. Greiddar voru álagsgreiðslur til starfsmanna vegna þessarar vinnu,“ segir í greinargerðinni. 

Kemur fram að Ingibjörg hafi fengið minna en aðrir þar sem álagstoppar hafi verið hluti af hennar starfi.

Ingibjörg ræddi um möguleg starfslok í lok árs 2011, bæði vegna álags „en einnig vegna vissrar óánægju með það ferli sem þá var í gangi við losun hafta og að aðkoma gjaldeyriseftirlitsins að því væri ekki nægilega mikil“. Samkvæmt munnlegu samkomulagi hélt hún áfram starfi sínu gegn vilyrði bankans fyrir námsstyrk frá bankanum við starfslok.

Hún fór svo í leyfi árið 2016 til að fara í nám við Harvard-háskóla og sagði starfi sínu lausu í lok árs 2017. Á því tímabili vann hún að gerð greinargerðar sem tengdist alþjóðasamningum sem nýttist, að því er fram kemur í greinagerð lögmanns Seðlabankans, í stefnumótunarvinnu bankans.


Tengdar fréttir

Leituðu aldrei afstöðu Ingibjargar til beiðni blaðamannsins

Seðlabanki Íslands byggði stefnu sína gegn Ara Brynjólfssyni, blaðamanns Fréttablaðsins, m.a. á því að "sanngjarnt væri og eðlilegt“ að fjárhagsmálefni Ingibjargar Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans, færu leynt.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
2,43
172
331.638

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
SKEL
-5,34
9
13.166
BRIM
-4,35
16
152.614
KVIKA
-4,17
116
601.651
ARION
-3,85
123
1.098.639
EIK
-3,57
9
50.385
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.