Handbolti

Seinni bylgjan: „Glórulaust hjá dómurunum og Bjarna Ófeigi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sérfræðingar Seinni bylgjunnar voru á því að rauða spjaldið sem Einar Ingi Hrafnsson, leikmaður Aftureldingar, fékk í leiknum gegn FH hafi verið rangur dómur. FH-ingar unnu leikinn með eins marks mun, 25-24.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka, í stöðunni 18-18, braut Einar Ingi á FH-ingnum Bjarna Ófeigi Valdimarssyni. Dómarar leiksins mátu það sem svo að brotið verðskuldaði rautt spjald.

„Mér finnst þetta ekki vera rautt spjald. Það er ekki vilji hvernig hann fer í hann. Hann fer í öxlina á honum,“ sagði Guðlaugur Arnarsson í Seinni bylgjunni í gær. Jóhann Gunnar Einarsson tók sterkar til orða en Guðlaugur.

„Mér finnst þetta glórulaust hjá dómurunum og líka smá hjá Bjarna Ófeigi. Mér finnst hann leika þetta mikið,“ sagði Jóhann Gunnar.

Mosfellingar voru langt frá því að vera sáttir með dómgæsluna í leiknum gegn FH-ingum. Þeir voru sérstaklega óánægðir með tveggja mínútna brottvísun sem starfsmaður Aftureldingar fékk fyrir að hlaupa inn á völlinn til að sinna meiddum leikmanni.

Jóhann Gunnar og Guðlaugur voru á því að dómarar og eftirlitsmaður leiksins hefðu brugðist rangt við í því atviki.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×