Erlent

Svæðisstjóri í Jemen segir ástandið fara versnandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Barnaheill, Save the Children á Íslandi, settu af stað söfnunarátak fyrir verkefni í Jemen og Sýrlandi í dag. Stefnt er að því að safna hundrað milljónum króna fyrir verkefni Save the Children í Sýrlandi og Jemen næsta mánuðinn. Forsetahjónin settu átakið í Smáralind.

Fréttastofa ræddi við Tamer Kirolos, svæðisstjóra samtakanna í Jemen, sem segir Save the Children reka þó nokkurn fjölda verkefna í landinu. Taldi hann meðal annars upp heilbrigðis-, og hreinlætisaðstoð. Einnig fengju fjölskyldur styrki fyrir matarinnkaupum. „Það er afar mikilvægt að vernda börnin. Auðvitað eru börn viðkvæm fyrir afleiðingum átaka sem þessara, hvort sem þær eru andlegar eða líkamlegar.“

Kirolos segir ástandið í landinu afar slæmt eftir átök undanfarinna ára. Tíu milljónir búi við sáran skort og alls þurfi um áttatíu prósent þjóðarinnar á aðstoð að halda. „Því miður er ástandið að versna og það hefur versnað stöðugt. Auðvitað er þetta versta mannúðarkrísa heims og hún er af mannavöldum. Hún stafar af átökum,“ segir hann og bætir því við að staðan muni ekki batna fyrr en alþjóðasamfélagið þrýstir á stríðandi fylkingar að koma á friði.

„Þangað til vopnahléi er komið á, þangað til viðræður um friðarferlið fara almennilega af stað mun ástandið halda áfram að versna,“ segir Kirolos.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×