Lífið

Kolfinna fær alltaf góð ráð frá frænkunni sem hefur unnið keppnina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kolfinna mætti í Brennsluna í morgun.
Kolfinna mætti í Brennsluna í morgun.
„Ég fór bara að gráta,“ segir Kolfinna Mist Austfjörð í Brennslunni á FM957 í morgun þegar hún fékk þær fréttir að hún væri að fara taka þátt í fegurðarsamkeppninni Miss World en í gær var tilkynnt hvaða kona myndi koma fram fyrir Íslands hönd í London núna í desember.

Linda Pétursdóttir umboðsaðili Miss World á Íslandi valdi Kolfinnu en þær eru frænkur. Kolfinna Mist er fædd og uppalin á Akureyri og er 23 ára gömul. Kolfinna er tónlistarkona, syngur og spilar á gítar. Kolfinna tók einnig þátt í Miss Universe Iceland í lok ágúst.

„Þú færð að vera úti í heimi á risasviði sem fulltrúi landsins þíns. Þetta verður bara geðveikt og ég er mjög spennt.“

Eins og áður segir fer keppnin fram í London.

„Þetta hefur verið áður í Kína og á rosalega framandi stöðum en ég er búin að fara til London svona fimm hundruð sinnum en ég elska London,“ segir Kolfinna og bætir við að það sé gott að tímamismunurinn sé lítill og að fjölskyldan geti nokkuð auðveldlega komið út og stutt við bakið á henni.

„Það eru miklu fleiri af mínum vinum og fjölskyldu að íhuga að koma. Miss World er þannig keppni að það er lögð mest áhersla á góðgerðarverkefni og það þurfa allar stelpurnar að koma fram með einhver góðgerðaverkefni. Ég er búin að vinna í mínu í næstum því ár núna og það heitir Now Not Later. Það er til að hjálpa aðstandendum krabbameinssjúklinga en kærastinn minn er með heilaæxli og það var þannig sem það kom til.“

Magnús kærasti Kolfinnu þurfti að fara í heilaskurðaðgerð og síðan í 12 mánaða lyfjameðferð og því stendur málefnið henni nærri.

Getur vonandi komið út í nokkra daga

„Hann langar að koma með mér út nokkrum dögum fyrr og vera aðeins með mér fyrir keppni. Svo þegar allar stelpurnar tékka sig inn á hótelið þá erum við bara eign Miss World og eru alveg á þeirra ábyrgð. Því er ekkert vinsælt að maður fái margar heimsóknir.“

„Hún er sú sem er að undirbúa mig fyrir þetta og ég fæ að spyrja hana um hvað sem er. Hún var klukkan fjögur í nótt í Kanada að senda mér fullt fyrir viðtal,“ segir Kolfinna um frænku sína Lindu P sem vann þessa keppni eftirminnilega á sínum tíma.

Hún segist finna fyrir pressu.

„Við eigum þrjá sigurvegara í þessari keppni svo það er töluverð pressa. Við erum held ég númer þrjú í heiminum yfir þeir þjóðir sem hafa unnið þetta oftast. Svo þarf ég að tala á sviði sem mér finnst ekkert mega þægilegt enn þá,“ segir Kolfinna sem þarf einnig að taka þátt í hæfileikakeppni en hún mun þá taka upp gítarinn og spila fyrir salinn og sjónvarpsáhorfendur.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið.


Tengdar fréttir

Fer eiginlega aldrei hjá sér

Kolfinna Austfjörð tekur þátt í Miss Universe Iceland 2019. Kolfinna er frá Akureyri og er nýlega flutt heim frá Noregi þar sem hún hefur búið undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×