Erlent

Yngsta fórnarlamb rafreykinga sautján ára gamall drengur

Kjartan Kjartansson skrifar
Ungmenni hafa ekki síst laðast að rafreykingum.
Ungmenni hafa ekki síst laðast að rafreykingum. Vísir/EPA
Sautján ára gamall drengur í New York er talinn yngsti sjúklingurinn sem lætur lífið af völdum dularfulls lungnasjúkdóms sem virðist tengjast rafreykingum. Hann er fyrsti táningurinn sem lætur lífið af völdum sjúkdómsins í Bandaríkjunum.

New York Times segir að yfirvöld í New York hafi tilkynnt um dauðsfall drengsins, sem var frá Bronx-hverfi, í gær. Hann er sá fyrsti sem lætur lífið af völdum sjúkdómsins í New York-ríki. Dauðsfallið er enn til rannsóknar.

Alls hafa 23 látist úr lungnasjúkdómnum í Bandaríkjunum samkvæmt tölum alríkisyfirvalda. Um það bil 1.100 tilfelli hafa greinst um allt landið.

Einkenni sjúkdómsins eru sögð líkja flensu eða lungnabólgu. Böndin hafa beinst að nokkrum maríjúanavörum fyrir rafrettur. Ekki er ljóst hvaða efna drengurinn í Bronx hafði neytt.

Nokkur ríki hafa bannað vökva með bragðefnum fyrir rafrettur vegna faraldursins. Ríkisstjórn Donalds Trump tilkynnti í síðasta mánuði að hún íhugað alríkisbann við bragðbættum rafrettum. Neytendastofa á Íslandi tók úr sölu fjölda vökva fyrir rafrettur í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.