Körfubolti

KR-ingar of sterkar fyrir Blika

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/bára
Breiðablik stóð í sterku liði KR en þurfti að sætta sig við tap í Domino's deild kvenna í körfubolta. Skallagrímur vann heimasigur á Grindavík og Keflavík sótti sigur á Ásvelli.

Blikar, sem féllu úr deildinni síðasta vetur en fengu sæti sitt aftur þar sem Stjarnan dró sig úr keppni, voru yfir eftir fyrsta leikhluta 18-17 en staðan var 35-40 fyrir KR í hálfleik.

KR-ingar náðu sér upp tíu stiga forskoti fljótlega í þriðja leikhluta og þeir héldu því nokkurn veginn út leikinn og unnu 69-78 sigur.

Í Borgarnesi unnu heimakonur í Skallagrími þægilegan sigur á Grindavík. Heimakonur tóku forystuna snemma og héldu stigaskori gestanna niðri, Grindvíkingar skoruðu aðeins 10 stig í öðrum leikhluta. Staðan í hálfeik var 46-24 og von Grindvíkinga orðin nokkuð veik.

Skallagrímskonur héldu áfram uppteknum hætti í þriðja leikhluta en slökuðu heldur á í lokafjórðungnum og lauk leiknum með 74-59 sigri.

Keflavík sótti tvö stig á Ásvelli þar sem þær unnu 65-54 sigur á Haukum.

Haukar skoruðu aðeins 20 stig í fyrri hálfleik á meðan Keflavík gerði 22 bara í fyrsta leikhluta. Heimakonur náðu aðeins að laga stöðuna í seinni hálfleik en sigur Keflavíkur var þó aldrei í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×