Handbolti

Bjarki Már þriðji markahæstur í þýsku deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már hefur skorað 7,5 mörk að meðaltali í leik það sem af er tímabils.
Bjarki Már hefur skorað 7,5 mörk að meðaltali í leik það sem af er tímabils. vísir/getty
Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, hefur farið vel af stað með Lemgo og er þriðji markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar.

Bjarki hefur skorað 30 mörk í fyrstu fjórum leikjum Lemgo í deildinni. Liðið vann fyrsta leik sinn en hefur nú tapað þremur í röð.

Íslenskættaði Daninn Hans Óttar Lindberg, leikmaður Füchse Berlin, er markahæstur í deildinni með 34 mörk. Landi hans, Morten Olsen, sem leikur með Hannover-Burgdorf, er næstmarkahæstur með 33 mörk. Hann hefur einnig gefið 20 stoðsendingar.

Bjarki hefur nýtt 79% skota sinna það sem af er tímabili. Tíu af 30 mörkum hans hafa komið af vítalínunni.

Bjarki Már fær leikmann Wetzlar í fangið.vísir/getty
Bjarki skoraði sjö mörk í sigri á Wetzlar, 28-32, í 1. umferðinni og sex mörk í tapi fyrir Magdeburg, 24-32, í 2. umferðinni.

Í þriðju umferðinni skoraði hann tíu mörk í tapi fyrir Melsungen, 26-23, og í síðustu umferð skoraði hann sjö mörk þegar Lemgo tapaði fyrir Hannover-Burgdorf, 26-36.

Bjarki hefur leikið í Þýskalandi síðan 2013. Hann var tvö ár í herbúðum Eisenach og svo fjögur ár hjá Füchse Berlin.

Bjarki var markahæstur í þýsku B-deildinni tímabilið 2014-15. Hann hefur mest skorað 119 mörk á einu tímabili í þýsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×