Bíó og sjónvarp

Ofbeldi hafið yfir konur og grín

Þórarinn Þórarinnsson skrifar
Hverjir eru bestir? Ítalskættaðir mafíósar. The Sopranos njóta þess líklega að þeir ruddu brautina fyrir gæðaefni.
Hverjir eru bestir? Ítalskættaðir mafíósar. The Sopranos njóta þess líklega að þeir ruddu brautina fyrir gæðaefni.
Ekki þarf að deila um að mafíósaþættirnir The Sopranos mörkuðu ákveðin þáttaskil í framleiðslu sjónvarpsþátta sem lyftist í kjölfarið á hærra plan. Dósahláturinn er að mestu þagnaður og það besta í sjónvarpi jafnast á við almennilegar bíómyndir.

„Það sést náttúrlega ef horft er á listann í heild að grínþættir og kvenlægir þættir eru að mínu mati gjarnan settir lægra en þeir eiga skilið,“ segir Laufey Haraldsdóttir leikkona sem er heldur betur vel séð þegar sjónvarpsþættir eru annars vegar. Hún hefur líka búið í Bretlandi og þekkir vel hvað mótar sjónvarpssmekk þarlendra.

Hún nefnir þættina The Mighty Boosh, Flight of the Conchords, Parks and Recreation, Black Books og Broad City sem dæmi um vanmetið grín. „Ég meina The Good Place er bara einhvers staðar í miðjunni og Gavin and Stacey sem er einn besti þáttur í heimi er líka bara mjög neðarlega,“ segir Laufey og bætir við að hún sé vel meðvituð um að fólk beri ekki jafn mikla virðingu fyrir gríni og drama.

Hvað klikkaði, Jessie? Walter White glansaði í Breaking Bad en endaði í 5.
Þetta sjáist vel á toppsætunum þar sem ofbeldi og dramatík eru í öndvegi í til dæmis efstu sætunum þar sem The Sopranos, The Wire og Breaking Bad eru í efsta laginu. „Og svo auðvitað Mad Men sem eru fullir af öðruvísi ofbeldi á meðan grínið er allt sett lægra með einhverju alls konar rusli eins og Big Brother. En þetta er breskur listi og það verður að hafa í huga að Bretar elska þetta,“ segir Laufey um innantómt raunveruleikasjónvarpið.

Þetta sjáist vel á toppsætunum þar sem ofbeldi og dramatík eru í öndvegi í til dæmis efstu sætunum þar sem The Sopranos, The Wire og Breaking Bad eru í efsta laginu. „Og svo auðvitað Mad Men sem eru fullir af öðruvísi ofbeldi á meðan grínið er allt sett lægra með einhverju alls konar rusli eins og Big Brother. En þetta er breskur listi og það verður að hafa í huga að Bretar elska þetta,“ segir Laufey um innantómt raunveruleikasjónvarpið.

Guardian sýnir RuPaul lítinn sóma.
Laufey nefnir RuPaul einnig sem dæmi um þessa tilhneigingu. „Þátturinn hans er menningarfyrirbæri sem konur og samkynhneigðir karlar elska og er rosalega vel framleitt sjónvarpsefni en bara í 93. sæti.“

Laufey bendir einnig á að velta megi fyrir sér hvort nokkrum þáttaröðum, til dæmis Lost og Game of Thrones, sem hafi verið frábærar en komið með lélegar seríur inn á milli sé refsað fyrir mistökin. „Og þá spyr ég, hvar eru Gilmore Girls? Er verið að refsa þeim fyrir að hafa verið með slæman tíu ára endurfund? Eða er verið að refsa þeim fyrir að vera grínþættir með konum í aðalhlutverki? Mér finnst skrítið að Gilmore Girls vanti bara alveg,“ segir hún en móðgar síðan sjálfsagt marga með þessum úrskurði:

„Í miðjunni eru alls konar þættir sem sumir myndu halda að ættu að vera ofar en mér finnst einmitt vera svona rétt yfir meðallagi. Eins og Sherlock, Doctor Who, Sex and the City, Downtown Abbey, og Orange is the New Black. Þetta eru allt mjög góðir svona eitthvað fyrir alla þættir sem eiga einmitt heima þarna rétt yfir miðju og hafa einmitt allir átt seríur sem eru lélegar.“

Fleabag hefði mátt vera ofar

Þótt Laufey hafi heilmargt við lista The Guardian að athuga er breski þátturinn Fleabag henni efst í huga. Fleabag er hugarfóstur leikkonunnar Phoebe Waller-Bridge sem byggir þá á einleik sínum sem hún flutti af sviði í sjónvarp með frábærum árangri.

Þátturinn hafnaði í 8. sæti listans en Laufey hefði viljað sjá hann aðeins ofar og færir fyrir því sterk og sannfærandi rök. „Ég elska þessa þætti. Örugglega af því að ég er leiklistarmenntuð en þeir byrjuðu sem einnar konu sýning á sviði,“ segir Laufey.

„Þetta eru tvær þáttaraðir og sú fyrsta var byggð á sviðsverkinu og hún er stórkostleg hún Phoebe. Hún brýtur fjórða vegginn en það er mjög sjaldgæft að það virki í sjónvarpi þótt það geri það á sviði. En þar sem þetta er einleikur þurfti hún að brjóta vegginn.“

Laufey segir galdur Fleabag ekki síst fólginn í því að undir öllu gríninu kraumar mikil alvara, jafnvel harmur. „Maður var stanslaust hlæjandi þangað til maður fattaði af hverju maður ætti ekki að vera að hlæja. Það er það sem er svo fallegt við þetta og mér þykir svo vænt um. Að það er alvara í gríni. Öllu gamni fylgir nokkur alvara og það er svo skýrt í þessu.

Maður átti síðan ekki von á að hún gæti toppað sig í seinni seríunni en það gerði hún svo sannarlega,“ segir Laufey. „Þetta eru fyndnar aðstæður en rosalega sorgmætt fólk. Mér þykir rosalega vænt um þessa þætti. Þeir eru drepfyndnir, kvenlægir og mér finnst þeir öðruvísi en annað sem ég hef séð. Það er einhver rosalegur tilfinningalegurkjarni í þessu og ég hefði viljað sjá þættina aðeins ofar.“

Lítið gert úr krúnunni

„Ég er mjög hissa á að The Crown endi ekki miklu ofar á listanum, því þeir eru með eindæmum vandaðir þættir,“ segir Sigríður Pétursdóttir, kvikmyndakona sem gerði á sínum tíma gott mót með útvarpsþættinum Kviku á Rás 1. „Þetta er frábær þáttagerð hvernig sem á það er litið og The Crown ættu reyndar að vera langt fyrir ofan Downtown Abbey,“ segir Sigríður um aðra hátimbraða breska þáttaröð sem dólar sér í 50. sæti aðeins fyrir neðan The Crown.

„Því þótt ég hafi gaman af að horfa á Downtown Abbey þá eru þeir frekar eins og risastórt súkkulaðistykki, sem maður nartar í á síðkvöldi. Helst fyrir framan arinn.“

Og vitaskuld hefur Sigríður sitthvað fleira við lista The Guardian að athuga. „Ég hefði líka viljað sjá Twin Peaks miklu framar og fannst undarlegt að Breaking Bad væru í fimmta sæti en var hins vegar ánægð með að sjá Fleabag svona framarlega, þótt þeir séu mjög nýlegir og bara tvær seríur.“

Breaking Bad ætti að toppa The Sopranos

„Bara af því að það er gaman að röfla aðeins yfir listum þá skil ég ekki af hverju Breaking Bad er aðeins í fimmta sæti á þessum lista en ekki því fyrsta þar sem þátturinn á heima,“ segir Ásgrímur Sverrisson, kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptré.is með fyrirvara um að hafa ekki séð The Wire sem er í öðru sæti listans á eftir The Sopranos.

„The Sopranos voru auðvitað af bragð og ruddu dálítið brautina fyrir þáttaraðir með hægri upp byggingu og meiri dýpt í persónusköpun, allavega í Ameríku, en Breaking Bad er samt sterkari heild og kynngimagnaðri, meiri gloría.

Ferðalag persónanna er stærra, bæði í sinni tragísku dýpt og epísku breidd. Svo eru þættirnir sjónrænt afar sterkir og þar hjálpast allt að; meðferð lita, leikmynd, ljós og myndskurður,“ segir Ásgrímur um Breaking Bad.

„Allt undirstrikar þetta afar vel ferðalagið frá örvæntingu hvunndagsmannsins til algerrar firringar hins ósnertanlega eiturlyfjabaróns. Þetta er svona heimur sem maður vill ekkert af vita en um leið getur maður ekki slitið sig frá honum. Að ná þessu fram er svolítið kraftaverk.“

Ásgrímur segir margt gott tínt til á listanum en þó vanti ýmislegt. „Til dæmis ætti Boardwalk Empire, allavega fyrstu syrpurnar, að vera í topp fimm en er hvergi. Og hvar er Næturvaktin? Ég spyr. Miklu betra stöff en margt þarna.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.