Körfubolti

Sögulegt tap Bandaríkjanna og áhyggjurnar fyrir HM aukast

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Úr leiknum í gærkvöldi
Úr leiknum í gærkvöldi vísir/getty
Bandaríska landsliðið í körfubolta beið lægri hlut fyrir því ástralska þegar liðin mættust í vináttuleik að viðstöddum 52 þúsund áhorfendum í Melbourne í gær.

Ástralía vann leikinn 98-94 og batt því enda á 78 leikja sigurgöngu bandaríska liðsins en Bandaríkin töpuðu síðast körfuboltaleik á HM 2006.

Þetta var jafnframt fyrsti sigur Ástralíu á Bandaríkjunum í körfubolta en liðin hafa mæst 26 sinnum frá árinu 1964.

Patty Mills, bakvörður San Antonio Spurs, fór mikinn og gerði 30 stig fyrir Ástrala en bæði lið eru að undirbúa sig fyrir HM í Kína sem hefst um næstu helgi. 

Körfuboltaáhugamenn í Bandaríkjunum hafa töluverðar áhyggjur af því að bandaríska liðið muni ekki verja heimsmeistaratitilinn á HM í Kína þar sem allar helstu stjörnur þjóðarinnar gefa ekki kost á sér í verkefnið.

Gregg Popovich mun þjálfa liðið og verður Kemba Walker skærasta stjarna liðsins í Kína á meðan leikmenn á borð við LeBron James, Steph Curry, Klay Thompson, James Harden, Russell Westbrook, Anthony Davis og fleiri góðir eru vestanhafs og undirbúa sig fyrir komandi leiktíð í NBA deildinni.

Fyrsti leikur Bandaríkjanna á HM er eftir slétta viku þar sem þeir mæta Tékklandi en áður en að því kemur munu þeir leika vináttuleik gegn Kanada.


Tengdar fréttir

Harden líka hættur við HM

Stærstu stjörnur bandaríska landsliðsins verða ekki með á HM í Kína sem fram fer í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×