Sport

Íslensku dæturnar unnu sannfærandi sigur á CrossFit móti í Köben

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsóttir fagna sigri.
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsóttir fagna sigri. Mynd/Instagram/butchersclassics
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsóttir fögnuðu saman glæsilegum sigri á Butcher Classics CrossFit mótinu í Kaupmannahöfn um helgina.

Anníe Mist og Katrín Tanja kepptu saman í liði á mótinu og rúlluðu upp öllum andstæðingum sínum. Þær unnu sex af sjö greinum og lentu í öðru sæti í einni grein.

Íslensku CrossFit goðsagnirnar kepptu undir nafninu Rogue Dottirs og fengu 695 stig af 700 mögulegum. Þær fengu 40 stigum meira en næsta lið, Team Nocco Butcher's Lab, sem var fyrir neðan þær í öllum greinum sjö.

Í einu greininni sem Anníe Mist og Katrín Tanja urðu í öðru sæti voru stelpurnar í Team Nocco Butcher's Lab í þriðja sæti.







Einu stelpurnar sem náðu að vinna okkar konur í grein um helgina voru þær Sara Armanius og Julie Hougaard frá Svíþjóð sem kepptu undir liðanafninu Julie og Sara.

Greinin var fimmta greinin í mótinu, hét „Dead in the Water“ og innihélt meðal annars 400 metra sund og 300 metra spretthlaup frá sundlauginni og inn í íþróttasal þar sem tóku við lyftingar.

Katrín Tanja þakkaði fyrir þetta óvænta boð á mótið en það kom greinilega upp með stuttum fyrirvara.

„Skyndiákvarðanir eru vanalega þær bestu. Svo skemmtileg helgi með bestu vinkonunni minni, Anníe Þórisdóttur. Við elskum að keppa og við elskum að keppa saman. Takk fyrir þið hjá Butchers Classics mótinu að leyfa okkur að vera með á síðustu stundu,“ skrifaði Katrín Tanja á Instagram síðu sína eins og sjá má hér fyrir neðan.

Anníe Mist fagnaði því líka að hafa getað átt gæðastund með vinkonu sinni um helgina en Katrín Tanja er mikið í Bandaríkjunum og því ekki á hverjum degi sem þessar tvær fá tækifæri til að æfa og vinna saman. Útkoman um helgina verður kannski til þess að þær geri meira af því í framtíðinni.








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×