Körfubolti

Fær 1,8 milljónir fyrir hvern dag sem hann heldur sæti sínu í Lakers-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard lék síðast með Lakers í úrslitakeppninni 2013. Það er einnig í síðasta skiptið sem Los Angeles Lakers liðið var í úrslitakeppni NBA.
Dwight Howard lék síðast með Lakers í úrslitakeppninni 2013. Það er einnig í síðasta skiptið sem Los Angeles Lakers liðið var í úrslitakeppni NBA. Getty/ Ronald Martinez
Miðherjinn Dwight Howard samdi við Los Angeles Lakers í gær um leið og hann var laus allra mála. Samningur hans er þó nokkuð sérstakur.

Dwight Howard skrifar undir svokallaðan sumarsamning þar sem hann er ekki öruggur með eina einustu krónu. Howard mun aftur á móti vinna sér inn væna upphæð fyrir hvern dag sem hann heldur sér í leikmannahópi Lakers.

Frá og með 21. október mun Dwight Howard fá 14.490 Bandaríkjadali fyrir hvern dag sem hann heldur sér í Lakers-liðinu eða 1,8 milljónir króna. Howard hefur því meira en milljón ástæður til að halda sér við efnið þegar tímabilið byrjar en Lakers „græða“ líka mikið á því að láta hann fara ef hann stendur sig ekki.





Dwight Howard er að snúa aftur til Lakers liðsins þar sem hann lék einnig tímabilið 2012 til 2013 en þá gekk dæmið ekki upp og hann var farinn sumarið eftir.

Lakers bauð honum meiri pening en Dwight Howard „stakk af“ og samdi við Houston Rockets fyrir minni pening. Stuðningsmenn Lakers hafa baulað á hann allar götur síðan en það breytist væntanlega í vetur.

Dwight Howard hefur flakkað milli sex félaga síðan að hann yfirgaf Lakers og nú vildi Memphis Grizzlies ekkert með hann hafa. Los Angeles Lakers vantaði miðherja eftir að DeMarcus Cousins sleit krossband.

Dwight Howard þarf að sanna sig upp á nýtt og hann er enn bara 33 ára gamall og ætti að eiga eitthvað eftir á tankinum. Hann hefur sýnt Lakers að bakið er orðið gott og þá hefur hann létt sig mikið.  Á síðasta tímabilinu þar sem hann var heill, 2017-18 mðe Charlotte Hornets, þá var hann með 16,6 stig og 12,5 fráköst að meðaltali í leik. Ekki slæmar tölur það.

Dwight Howard hefur líka tekið þá ákvörðun að spila í treyju númer 39 á næstu leiktíð en hann hefur lengstum spilað í treyju númer 12 en var númer 21 hjá Washington Wizards.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×