Lífið

Það verður geggjað að búa hlið við hlið

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Sólveig og Emilía voru í vandræðum með að finna hús sem hentaði fjölskyldum þeirra svo þær tóku til sinna ráða.
Sólveig og Emilía voru í vandræðum með að finna hús sem hentaði fjölskyldum þeirra svo þær tóku til sinna ráða. KLARA LIND GYLFADÓTTIR
Vinkonurnar Emilía Christina Gylfadóttir og Sólveig Ragnheiður Gunnarsdóttir eru að byggja raðhús saman með mönnunum sínum Róberti Elvari Kristjánssyni og Karli Stephen Stock. Þær halda úti bloggsíðunni emmasol.com og Instagramreikningnum emmasol.is þar sem hægt er að fylgjast með framkvæmdunum.„Við vorum svolítið að grínast með að það þyrfti að vera til handbók um hvernig ætti að fara að því að byggja hús. Það var svolítið pælingin með blogginu, að geta farið til baka seinna og horft á ferlið en líka að aðrir geti geti lært af okkur, bæði mistökum og sigrum,“ segir Emilía. Sólveig tekur undir og segir að þær séu heldur ekkert að skafa af því ef þau gera mistök. Á blogginu ríkir hreinskilni um allt ferlið.Aðdragandi þess að tvö pör sem hafa verið vinir í bráðum 12 ár fóru að byggja hús saman var að þau voru í húsnæðisleit sem gekk ekki vel.„Við Kalli, maðurinn minn, vorum lengi búin að leita að húsnæði í Vesturbænum og sömuleiðis Emilía og Robbi. Þau voru að leita úti á Kársnesi. En við erum með þrjú og fjögur börn svo við vorum ekki að leita að litlu húsnæði og það var ekki auðvelt að finna húsnæði á þessum svæðum með herbergjum fyrir öll börnin,“ segir Sólveig en bætir við að þau hafi aldrei planað að kaupa lóð saman.„Nei, alls ekki,“ segir Emilía. „Ég og Robbi, maðurinn minn, vorum búin að liggja á fasteignasíðunum þegar hann rak augun í þetta hús niðri á Kársnesi. Ég hringdi svo í Sólveigu bara til að fá ráðleggingar, ég var svona að velta möguleikunum fyrir mér því þetta var ónýtt gamalt hús. Mér datt til dæmis í hug að það væri sniðugt að byggja parhús á lóðinni því hún er frekar stór.“

Hér er niðurrifið komið vel af stað.

Áttu allt í einu hús saman

„Ég var alveg bara ha? Með hverjum ætlar þú að byggja parhús? Svo segi ég manninum mínum frá þessu um kvöldið. Við vorum búin að bjóða í einhver fimm hús en ekki fengið þau og vorum orðin frekar pirruð. Við fórum þess vegna að velta þessari lóð fyrir okkur og ákváðum svo að spyrja Robba og Emilíu hvort við mættum ekki bara bjóða í húsið með þeim,“ segir Sólveig.Þetta endaði svo með því eftir miklar vangaveltur og pælingar og ráðleggingar frá byggingarfulltrúa að pörin tvö buðu í húsið og tilboðið var samþykkt.„Allt í einu áttum við hús og lóð saman og urðum að fara að gera eitthvað í því,“ segir Emilía.

Fjölskyldurnar saman á lóðinni þar sem húsið mun rísa.
Eftir að hafa leitað til nokkurra arkitekta fengu þau Trípólí arkitekta til að teikna húsið. „Þeir eru ungir og flottir og með svipaðan stíl og við,“ segir Sólveig. Hún segir að margir hafi spurt af hverju þau hafi ekki bara notað tæknifræðinga því þeir eru ódýrari en þau hafi frekar viljað vinna með arkitektum.„Það er mikið sem þeir spá í sem aðrir gera ekki. Eins og birtuskilyrði til dæmis. Svo eru mjög skemmtilegar stigapælingar inni í húsinu. Það er svo margt sem gerir húsið okkar sérstakt og að okkar mati mjög fallegt,“ segir Sólveig.Vinkonurnar segjast hafa rekist á marga veggi við framkvæmdirnar. Til dæmis hafi tekið tíma að fá öll leyfi og fara í grenndarkynningu og fá húsið samþykkt af nágrönnum og Kópavogsbæ og leyfi til að rífa gamla húsið.„Svæðið er ódeiliskipulagt og náði grenndarkynningin þess vegna yfir mjög stórt svæði. Það voru mjög margir íbúar sem máttu skila inn athugasemdum,“ segir Sólveig.

Mótel af hluta hússins.TRÍPÓLÍ arkitektar

Gekk milli nágrannanna

Til að flýta fyrir ferlinu gekk Emilía í öll hús sem voru í grenndarkynningunni. „Þannig að ég þekki nágrannana núna mjög vel,“ segir hún hlæjandi. „Sem betur fer voru flestir jákvæðir að fá nýtt hús því húsið sem var þarna fyrir hafði staðið þarna lengi óhirt. Þetta var ekki gamalt fallegt hús sem Minjastofnun hefði viljað varðveita. Það var byggt á krepputímum úr afgangsviði og afgangsbárujárni og orðið mjög myglað.“„Meira að segja eigandinn var ánægð að vita að við ætluðum að byggja nýtt hús þarna,“ skýtur Sólveig inn.Eins og staðan er í dag, einu og hálfu ári eftir að fjölskyldurnar festu kaup á lóðinni, eru sökklarnir komnir og planið er að klára plötuna í vikunni. „Okkur skilst að þá séum við búin með helminginn af verkefninu. Upprunalega átti húsið að vera tilbúið fyrir jól. Það er ekki að fara að gerast en við vonum að við getum flutt inn fyrir páskana,“ segir Sólveig.

Tölvuteikning af endanlegu útliti hússins.TRÍPÓLÍ arkitektar
Vinkonurnar segja að ótrúlegt en satt þá hafi verkefnið ekki reynt mjög mikið á vinskapinn. „Það er bara gaman að gera þetta með vinum sínum. Við erum mjög ólík og skiptum með okkur verkum eftir styrkleikum okkar. Við vonumst til að geta unnið mikið í húsinu sjálf þegar það er uppsteypt,“ segir Sólveig.„Við gerðum vinasáttmála í upphafi. Þar ákváðum við að vera dugleg að rækta vinskapinn og hittast reglulega og tala um eitthvað annað en húsið, en það getur verið erfitt að tala ekki um það,“ segir Emilía og þær hlæja báðar.„Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Vinskapurinn er orðinn betri ef eitthvað er og það verður bara geggjað að búa hlið við hlið,“ segir Emilía.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.