Handbolti

Varði öll fjögur vítin sem hann fékk á sig gegn Brasilíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður varði tólf skot gegn Brasilíu, þar af fjögur víti.
Sigurður varði tólf skot gegn Brasilíu, þar af fjögur víti. mynd/ihf/

Sigurður Dan Óskarsson gerði sér lítið fyrir og varði öll fjögur vítaköstin sem hann fékk á sig í leik Íslands og Brasilíu í D-riðli heimsmeistaramóts U-19 ára í handbolta í Norður-Makedóníu í gær. Íslendingar unnu leikinn, 30-26, og eru með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Ísland hefur fengið sjö víti á sig á HM til þessa og Sigurður hefur varið sex, eða 83% þeirra víta sem hann hefur reynt sig við. Hann varði tvö af þremur vítum Túnisa á þriðjudaginn og öll fjögur víti Brasilíumanna í gær.

Enginn markvörður hefur varið fleiri víti á HM en Sigurður. Norðmaðurinn Thomas Langerud kemur næstur en hann hefur varið þrjú af þeim fimm vítum sem hann hefur fengið á sig á mótinu.

Sigurður varði tólf skot gegn Brasilíu í gær og var þriðjungur þeirra vítaskot. Hann varði einnig tvö langskot, tvö gegnumbrot, tvö færi úr hornum og tvö af línu. Hlutfallsmarkvarsla hans var 33%.

Í sigrinum á Túnis, 25-20, varði Sigurður 13 af þeim 33 skotum sem hann fékk á sig (39%).

Sigurður, sem leikur með FH, hefur varið næstflest skot allra markvarða á HM, eða 26 skot. Aðeins Ungverjinn Kristof Györi hefur varið fleiri skot, eða 31 talsins.

Næsti leikur Íslands er gegn Portúgal á morgun.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.