Handbolti

Frábær vörn skilaði öruggum sigri á Túnis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur Gautason var valinn maður leiksins.
Dagur Gautason var valinn maður leiksins. mynd/ihf
Ísland vann fimm marka sigur á Túnis, 25-20, í fyrsta leik sínum á HM U-19 ára karla í handbolta í Norður-Makedóníu í dag.

Íslenska vörnin var afar öflug í leiknum í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem Túnis skoraði aðeins sex mörk. Ísland skoraði hins vegar tólf.

Ísland náði mest átta marka forskoti, 18-10, þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.

Sóknarleikur Túnisa lagaðist eftir því sem leið á seinni hálfleikinn en þeir nálguðust Íslendinga ekki að neinu ráði. Á endanum munaði fimm mörkum á liðunum, 25-20.

Dagur Gautason var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk. Hann var valinn maður leiksins. Haukur Þrastarson skoraði fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar og Einar Örn Sindrason skoraði fjögur mörk, öll úr vítum. Sigurður Dan Óskarsson varði 13 skot (39%).

Næsti leikur Íslands er gegn Brasilíu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×