Körfubolti

Besta körfuboltalið allra tíma vann Ólympíugull á þessum degi fyrir 27 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Larry Bird, Scottie Pippen, Michael Jordan, Clyde Drexler og Karl Malone á verðlaunapallinum 8. ágúst 1992.
Larry Bird, Scottie Pippen, Michael Jordan, Clyde Drexler og Karl Malone á verðlaunapallinum 8. ágúst 1992. Getty/Richard Mackson
8. ágúst 1992 stigu tólf stoltir bandarískir körfuboltamenn upp á verðlaunapall á Ólympíuleikunum í Barcelona. Þeir höfðu myndað fyrsta draumalið körfuboltans og höfðu boðið upp á tveggja vikna körfuboltasýningu á leikunum.

Draumalið Bandaríkjanna á ÓL 1992 var skipað ellefu af bestu körfuboltamönnum allra tíma og einum háskólaleikmanni, Christian Laettner.

Þetta var í fyrsta sinn sem atvinnumenn fengu að spila á Ólympíuleikunum og í framhaldi varð NBA-körfuboltinn gríðarlega vinsæll út um allan heim.

Í aðalhlutverkum í bandaríska liðinu voru menn eins og Michael Jordan, Magic Johnson, Karl Malone, Charles Barkley, Chris Mullin og Larry Bird.





Þarna voru líka frábærir leikmenn eins og þeir Clyde Drexler, Patrick Ewing, Scottie Pippen, David Robinson og John Stockton.

Bandaríska liðið vann alla leiki sína á Ólympíuleikunum og það með 44 stigum að meðaltali í leik. Í úrslitaleiknum mætti bandaríska liðið Króatíu og vann leikinn með 32 stigum, 117-85. Bandaríkjamenn höfðu unnið Króatana með 33 stigum í riðlinum, 103-70.

Stærsti sigurinn var á móti Angóla í fyrsta leik en Bandaríkjamenn unnu hann með 68 stiga mun eða 116-48.





Charles Barkley var stigahæsti leikmaður bandaríska liðsins á leikunum en hann skorað 18,0 stig að meðaltali í leik á leikunum. Barkley nýtti 71 prósent skota sinna þar af 7 af 8 þriggja stiga skotum (87,5%).

Michael Jordan var bæði næst stigahæstur (14,9 stig í leik) og þriðji stoðsendingahæstur (4,8 stoðsendingar í leik). Scottie Pippen gaf flestar stoðsendingar eða 5,9 í leik en Magic Johnson var með 5,5 stoðsendingar að meðaltali.

Auk Barkley og Jordan voru þrír aðrir leikmenn með meira en tíu stig að meðaltali í leik eða þeir Karl Malone (13,0), Chris Mullin (12,9) og Clyde Drexler (10,5). Allir leikmenn nema Christian Laettner og John Stockton voru með meira en átta stig að meðaltali í leik.

Patrick Ewing og Karl Malone tóku flest fráköst eða 5,3 að meðaltali en Barkley og David Robinson komu næstir með 4,1 frákast í leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×