Lífið

Víkingaklappar „strákana okkar“ í bryggjustaura

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Jonni hefur um árabil fengist við listsköpun úr gömlu timbri og tekst nú á við sjö gegnheila landsliðsmenn í Vilnius með hjálp eiginkonunnar Kseniju.
Jonni hefur um árabil fengist við listsköpun úr gömlu timbri og tekst nú á við sjö gegnheila landsliðsmenn í Vilnius með hjálp eiginkonunnar Kseniju.

Ég hef verið að undirbúa þetta lengi og er næstum því búinn með Ara Skúlason sem liggur núna á maganum og er að láta snyrta á sér hendurnar í víkingaklappinu,“ segir Jóhann Sigmarsson um fyrsta landsliðsmanninn af sjö sem hann stefnir á að höggva í aldargamalt timbur úr Reykjavíkurhöfn.

Jonni, eins og hann er alltaf kallaður, fékk hugmyndina að því að reisa frægðarför íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM sumarið 2016 verðugan og gegnheilan minnisvarða eftir að ljóst varð að liðið kæmist á HM 2018.

Víkingaklappið og frægðarför karlalandsliðsins á EM komu slíku róti á huga Jonna að honum fannst annað ómögulegt en að höggva „strákana okkar“ með sínu lagi í timbur sem honum finnst kallast á við úthald og seiglu landsliðsins.

Ksenija Zapadenceva.

HÚH!

„Þegar þeir komust á HM fannst mér þurfa að gera höggmyndir af þessum hetjum,“ segir Jonni í samtali við Fréttablaðið og bætir við að honum hafi þótt massíft og sjóbarið timbrið tilvalinn efniviður í listaverkið sem hann sér ekki síst fyrir sér sem minnisvarða um víkingaklappið.

„Þetta víkingaklapp sem varð heimsfrægt fangar einhvern veginn þessa sterku tilfinningu og gagnkvæmu hvatningu sem tengdi leikmenn og áhorfendur saman,“ segir Jonni sem treystir á að „húh-ið“ bergmáli enn með þjóðarsálinni þannig að almenningur muni leggja honum lið svo þessi hugmynd hans geti orðið að hátimbruðum raunveruleika.


Þarf að safna 4 milljónum

„Við ákváðum að reyna að gera þetta með hópfjármögnun og leita til þjóðarinnar,“ segir Jonni um söfnun sem er komin í gang á Karolinafund.com og leggur áherslu á að honum og hans fólki muni ekki takast ætlunarverkið án stuðnings almennings.

„Það væri gott að fá bara þjóðina til þess að standa á bak við þetta enda eru þetta náttúrlega strákarnir okkar,“ segir Jonni sem lítur á verkið sem gjöf þjóðarinnar til KSÍ og í raun til sjálfrar sín um leið.

Söfnunin hófst í síðustu viku og þótt enn sé langt í land og 75 dagar til stefnu hafa Jonni og konan hans, Ksenija Zapadenceva, þegar lagt til atlögu við drumbana ógurlegu á vinnustofu sinni í Vilnius­ í Litháen þar sem þau búa.

„Við erum aðallega tvö í þessu, hjónin, en síðan fáum við aðstoðarmenn þegar á þarf að halda. Þetta eru náttúrlega massífir drumbar sem erfitt er við að eiga. Þetta er enginn korkur,“ segir Jonni sem þar fyrir utan getur vegna fötlunar aðeins beitt annarri hendinni.

Landsliðsmaðurinn Ari Freyr Skúlason er sá fyrsti sem tekur á sig mynd úr trédrumbunum.

Tilbúinn fyrir tréverk

„Drumbarnir eru þéttvaxnir og búnir að taka á sig ansi mikið veður í gegnum tíðina og fara í gegnum tvær heimsstyrjaldir,“ segir Jonni sem hefur um árabil unnið með timbur sem á sér langa sögu. „Þannig að þeir munu standa allt af sér áfram,“ heldur Jonni áfram og er þess fullviss að veðrað timbrið muni ekki síður standast veður og vinda sem útilistaverk ofansjávar.

Jonni og Ksenija hefla þurrkaða drumbana og líma saman í klumpa þangað til rúmlegri líkamsstærð sjö landsliðsmanna er náð. Þá er hver klumpur sagaður til með keðju- og fjölsög eftir ljósmyndum af viðkomandi.


Olíubornar hetjur

„Síðan pússum við þá og gætum að hverju smáatriði þannig að ekki fari á milli mála hver maðurinn er. Allur frágangur verður unnin í höndunum og höggmyndirnar verða olíubornar fimm sinnum til þess að ná góðri og lifandi áferð.“

Jonni segir Guðna Bergsson, formann KSÍ, hafa tekið vel í hugmyndina sem hann bar undir Guðna um leið og minnisvarðinn fór að taka á sig mynd í huga hans. „Hann Guðni hefur nú þegar einhvern stað í huga í grennd við Laugardalsvöllinn og ég ætla bara að leyfa stjórn KSÍ að grúska í þessu að finna strákunum góðan stað þar sem þeir geta vonandi staðið um ókomna tíð.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.