Körfubolti

Kawhi Leonard getur yfirgefið Clippers eftir aðeins tvö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kawhi Leonard.
Kawhi Leonard. Getty/Vaughn Ridley
Kawhi Leonard gerði „bara“ þriggja ára samning við Los Angeles Clippers í NBA-deildinni í körfubolta en hann hefur nú skrifað undir hjá nýja félaginu sínu.

Kawhi Leonard gerði þó ekki fjögurra ára samning eins og flestir voru að velta fyrir sér og þá ræður hann sjálfur hvort hann taki þriðja og síðasta árið í samningnum.

Þetta þýðir að Kawhi Leonard getur aftur verið laus allra mála sumarið 2021 gangi dæmið ekki upp með liði Los Angeles Clippers.

Leonard valdi Los Angeles Clippers eftir að félagið fékk til sín góðvin hans Paul George. Paul George var nýbúinn að skrifa undir samning við Oklahoma City Thunder sem náði til ársins 2022.

Paul George getur samt eins og Leonard losnað undan síðasta ári sínu í samningnum. Kawhi Leonard og Paul George gætu því báðir verið með lausa samninga sumarið 2021.





Kawhi Leonard fær 103 milljónir dollara fyrir þennan þriggja ára samning eða sem jafngildir 13 milljörðum íslenskra króna.

Los Angeles Clippers hafði betur í baráttunni við Los Angeles Lakers og Toronto Raptors um undirskrift Kawhi Leonard.

Kawhi Leonard er 28 ára gamall og hefur bæði orðið NBA-meistari með San Antonio Spurs og Toronto Raptors. Í bæði skiptin var hann líka kosinn besti leikmaður lokaúrslitanna.

Kawhi Leonard er frábær leikmaður á báðum endum vallarins en hann var með 30,5 stig, 9,1 frákast og 3,9 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni með Toronto Raptors.

Leonard hefur skorað fleiri stig að meðaltali á ferlinum í úrslitakeppninni (19,6) heldur en í deildarkeppninni (17,7). Hann var tvisvar kosinn varnarmaður ársins (2015 og 2016).







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×