Viðskipti erlent

Danskur verktaki fær flugvelli á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugbrautin í Nuuk fer úr 950 metrum upp í 2.200 metra.
Flugbrautin í Nuuk fer úr 950 metrum upp í 2.200 metra. Grafík/Kalaalit Airports.
Danska verktakafyrirtækið Munck Gruppen varð hlutskarpast í útboði um gerð nýrra flugvalla í Nuuk og Ilulissat á Grænlandi. Tilboðsfjárhæðir hafa ekki verið gefnar upp en í frétt grænlenska fréttamiðilsins Sermitsiaq kemur fram að júlímánuður verði nýttur til að ganga frá efnisatriðum samninga og stefnt sé að undirritun í ágústmánuði. 

Þrjú tilboð bárust. Hin tvö voru frá kanadíska félaginu Pennecon Dextor og hollenska félaginu BAM. Alls var sex verktakasamsteypum boðið að taka þátt í útboðinu eftir forval en þrjár þeirra skiluðu ekki inn tilboði, þeirra á meðal kínverskur verktaki, en aðkoma hans olli pólitískum titringi meðal NATO-þjóða. Þá hafði dansk íslenska samsteypan Aarsleff/Ístak áður tilkynnt að hún hefði fallið frá þátttöku í útboðinu.

Grafísk mynd af flugvellinum í Ilulissat eftir stækkun. Ef grannt er skoðað sést að Grænlendingar gera ráð fyrir flugvélum frá Icelandair og Air Iceland Connect.Grafík/Kalallit Airports.
Framkvæmdir eiga að hefjast strax í haust við báða flugvelli. Umsvifin verða fyrst mest í Nuuk en stefnt að því að næsta vor verði framkvæmdir einnig komnar á fullt í Ilulissat. Báðir flugvellir eiga að vera tilbúnir fyrir árslok 2023, er haft eftir Peter Wistoft, framkvæmdastjóra Kalaallit Airports, flugvallafélags Grænlands, í fréttatilkynningu. Hann upplýsir ennfremur að félagið hafi nú samið um lántöku vegna framkvæmdanna, sem nemur 8,5 milljörðum íslenskra króna, frá danska ríkinu og Norræna fjárfestingabankanum. 

Sjá einnig hér: Grænlendingar hefja mestu uppbyggingu í sögu landsins 

Flugvallagerðin verður stærsta innviðauppbygging í sögu Grænlands og var áætlað í fyrra að hún myndi kosta um 70 milljarða íslenskra króna. Vellirnir í Nuuk og Ilulissat fá nýja flugstöð og 2.200 metra flugbraut, til að geta tekið við þotuumferð, en núverandi brautir eru aðeins 900-1.000 metra langar. Jafnframt verður nýr flugvöllur með 1.500 metra langri braut lagður við Qaqortoq, stærsta bæ Suður-Grænlands.

Airbus-breiðþota Air Greenland á flugvellinum í Kangerlussuaq, sem áður hét Syðri-Straumfjörður. Bombardier-vél Flugfélags Íslands sést fyrir framan. Þetta er eini flugvöllur Grænlands í dag sem tekur við þotum í áætlunarflugi.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Samningur sem Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, gerði síðastliðið haust við Lars Løkke Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra Danmerkur, um milljarða fjárstuðning Dana við flugvallgerðina, leiddi til þess að grænlenska ríkisstjórnin sprakk. Kim Kielsen tókst engu að síður að tryggja sér meirihlutastuðning fyrir málinu og mynda nýja ríkisstjórn. 

Sjá nánar hér: Framlag Dana til flugvallagerðar sprengdi ríkisstjórn Grænlands 

Í dönskum fjölmiðlum var haft eftir sérfræðingum um varnarmál að gjafmildi Dana snerist í raun um að halda Kínverjum frá Grænlandi. Um sama leyti lýsti bandaríska varnarmálaráðuneytið yfir vilja til að taka þátt í flugvallagerðinni en ekki hefur komið fram með hvaða hætti það verður gert.

Kim Kielsen tók á móti Lars Løkke Rasmussen á flugvellinum í Nuuk síðastliðið haust þegar forsætisráðherra Danmerkur kom til að undirrita flugvallasamninginn.Mynd/TV-2, Danmörku.
Danski verktakinn Munck Gruppen, sem nú fær flugvallagerðina, vann stórt verkefni fyrir bandaríska herinn við Thule-herstöðina á Norður-Grænlandi á árunum 2014 til 2017. Árið 2016 keypti Munck íslenska verktakafyrirtækið LNS Saga af norska félaginu LNS og breytti nafni þess í Munck Íslandi ehf. 

Þessu íslenska dótturfélagi var í dönskum fjölmiðlum fyrr á árinu lýst sem vandræðabarni Munck eftir stórfelldan taprekstur á árunum 2017 til 2018. Munck höfðaði síðan mál gegn LNS fyrir að hafa gefið ófullnægjandi og villandi upplýsingar um stöðu félagsins í söluferlinu. 

Stöð 2 fjallaði fyrir tveimur árum um mikla innviðauppbyggingu Grænlands í þætti frá Nuuk:


Tengdar fréttir

Grænlendingar byggja upp nýtt flugvallakerfi

Grænlensk stjórnvöld áforma stórfelldar flugvallaframkvæmdir sem gjörbreyta flugsamgöngum við landið og gætu styrkt tengsl Íslands og Grænlands enn frekar.

Bandaríkin blanda sér í flugvallamál Grænlands

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur lýst yfir vilja til að taka þátt í flugvallauppbyggingu Grænlands í því skyni að styrkja stöðu Bandaríkjanna og NATO á norðurslóðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×