Viðskipti innlent

Tekjur Örnu jukust um fjórðung

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Tekjur Örnu hafa vaxið hratt frá því að framleiðsla hófst 2013. Þær voru 1.052 milljónir í fyrra og jukust um fjórðung á milli ára. Fréttablaðið/Ernir
Tekjur Örnu hafa vaxið hratt frá því að framleiðsla hófst 2013. Þær voru 1.052 milljónir í fyrra og jukust um fjórðung á milli ára. Fréttablaðið/Ernir
Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík hagnaðist um liðlega sjö milljónir króna á síðasta ári, samkvæmt nýlegum ársreikningi félagsins, borið saman við fimmtán milljóna króna hagnað árið 2017.

Rekstrartekjur Örnu, sem sérhæfir sig í framleiðslu á laktósafríum mjólkurvörum, námu rúmum 1.052 milljónum króna á síðasta ári og jukust um 23 prósent frá fyrra ári þegar þær voru alls 858 milljónir króna en þær hafa vaxið ört frá því að framleiðsla hófst á haustdögum 2013.. EBITDA mjólkurvinnslunnar – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – var jákvæð um 51 milljón króna í fyrra en til samanburðar var hún jákvæð um 53 milljónir króna árið 2017.

Arna átti eignir upp á tæplega 409 milljónir króna í lok síðasta árs en á sama tíma var eigið fé félagsins 116 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið því um 28 prósent. Ársverk mjólkurvinnslunnar voru 21 talsins í fyrra, borið saman við 18 árið áður, og námu laun og annar starfsmannakostnaður hennar samanlagt 169 milljónum króna.

Dvorzak Ísland, sem er í eigu fjárfestisins Jóns von Tetzchner, er stærsti hluthafi Örnu með ríflega helmingshlut en stofnandinn og framkvæmdastjórinn Hálfdán Óskarsson er sá næststærsti með fimmtán prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×