Erlent

Myndband sýnir Trump og Epstein virða fyrir sér ungar klappstýrur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Trump bendir Epstein á stúlkur í samkvæminu.
Trump bendir Epstein á stúlkur í samkvæminu. skjáskot/Youtube
Myndskeið sem sýnir Donald Trump Bandaríkjaforseta og bandaríska milljarðamæringinn Jeffrey Epstein, sem ákærður hefur verið fyrir mansal á tugum stúlkna, ræða saman á vinalegum nótum var birt á NBC-sjónvarpsstöðinni í morgun. Trump hefur reynt að gera lítið úr vinskap sínum við Epstein síðan sá síðarnefndi var handtekinn fyrr í þessum mánuði.

Sjá einnig: Sak­sóknarar segja Ep­stein hættu­legan um­hverfi sínu

Myndbandið er tekið upp árið 1992 og er hluti af innslagi í spjallþætti Faith Daniels sem sýndur var á NBC á tíunda áratugnum. Í innslaginu var fylgst með fjörugu samkvæmislífi Trumps, sem þá var nýskilinn, en umrætt myndskeið er tekið upp í samkvæmi í Mar-a-Lago, klúbbi Trumps í Flórída.

Þar virðist sem Trump bendi Epstein á ungar konur í samkvæminu, sem voru flestar klappstýrur hjá bandaríska fótboltaliðinu Buffalo Bills á þeim tíma. Upptakan nemur ekki það sem þeim Trump og Epstein fer á milli en Trump virðist þó á einum tímapunkti segja: „Líttu á hana þarna fyrir aftan, hún er æsandi.“

Myndbandið og umfjöllun NBC má sjá hér fyrir neðan.

Epstein var handtekinn í New Jersey í byrjun júlí en hann er m.a. ákærður fyrir mansal á tugum stúlkna sem hann á að hafa misnotað, og að hafa greitt fórnarlömbum sínum til að finna aðrar stúlkur fyrir sig.

Epstein á ýmsa valdamikla vini, þar á meðal núverandi og fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Bill Clinton er þannig sagður hafa flogið ítrekað með einkaþotu Epstein. Trump forseti hefur einnig lýst vinskap sínum við milljarðamæringinn.

„Það er mjög gaman að vera með honum. Það er jafnvel sagt að hann kunni að meta fallegar konur til jafns við mig og að margar þeirra séu jafnvel í yngri kantinum,“ sagði Trump um Epstein í viðtali við New York-tímaritið árið 2002.

Sjá einnig: Segir Ep­stein hafa nauðgað sér þegar hún var fimm­tán ára

Forsetinn hefur þó reynt að gera lítið úr þessum tengslum síðan Epstein var handtekinn. Haft var eftir honum á dögunum að hann hefði vissulega þekkt Epstein en þeim hefði sinnast fyrir fimmtán árum og ekki talast við síðan. „Ég var ekki aðdáandi hans, get ég sagt þér,“ sagði Trump.

Epstein er nú í haldi lögreglu á Manhattan en beiðni lögmanna hans um að hann muni sæta stofufangelsi í glæsihýsi sínu verður tekin fyrir nú í vikunni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.