Körfubolti

Eltu bíl Kawhi Leonard á þyrlu: Enn beðið og Kawhi er með þrjú NBA-lið í „gíslingu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kawhi Leonard er einn besti leikmaður NBA-deildarinnar og maðurinn á bak við sigur Toronto Raptors í ár.
Kawhi Leonard er einn besti leikmaður NBA-deildarinnar og maðurinn á bak við sigur Toronto Raptors í ár. Getty/John W. McDonough
Kawhi Leonard er ekkert að flýta sér að taka ákvörðun um með hvaða NBA-liðið hann spilar á næstu leiktíð. Þrjú félög koma til greina og margir eru orðnir langþreyttir eftir ákvörðuninni.

Hún kom ekki 1. júlí, ekki 2. júlí og ekki 3. júlí. Kemur hún í dag eða kannski ekki fyrr en um helgina. Það veit enginn og ekkert heyrist úr herbúðum leikmannsins sjálfs.





Allar stærstu stjörnurnar NBA sem voru með lausan samning hafa fyrir löngu tilkynnt um sína ákvörðun en hver dagurinn líður á meðan ekkert fréttist af því hvað Leonard ætlar að gera.

Bandarískir íþróttaþáttastjórnendur hafa talað stanslaust um Kawhi Leonard þessa þrjá daga án þess að vita í rauninni neitt. Kawhi Leonard vill nefnilega algjöra fjölmiðlaþögn þegar kemur að þessari ákvörðun.





Fjölmiðlamennirnir voru samt flestir búnir að spá því að hann færi í Los Angeles Lakers en í gær sagðist gamla NBA-stjarnan Jalen Rose vera 99 prósent viss um að Kawhi Leonard myndi gera tveggja ára samning við Toronto Raptors. Með því gæti hann fengið ofursamning frá Toronto eftir þessi tvö ár.

Í gær hitti Kawhi Leonard talsmenn Toronto Raptors og svo mikill áhugi var á þeim fundi í Kanada að kanadísk sjónvarpsstöð elti bíl Kawhi á þyrlu. Þetta var bara farið að minna á OJ Simpson eltingarleikinn en þetta var að gerast í Kanada.





Kawhi Leonard átti vissulega frábært tímabil með Toronto Raptors liðinu. Toronto varð NBA-meistari í fyrsta sinn og Leonard var kosinn besti leikmaður lokaúrslitanna. Hann endurtók því leikinn frá því með San Antonio Spurs.

Hann var hins vegar skipt frá San Antonio til Toronto Raptors fyrir lokaár samningsins og er því laus allra mála. Toronto vill auðvitað halda kappanum en það er líka mikill áhugi frá Los Angeles liðunum báðum.

Bæði Los Angeles Clippers og Los Angeles Lakers hafa gert allt til þess að fá Kawhi Leonard og bæði hafa í leiðinni misst af leikmönnum á markaðnum sem hafa þá samið við önnur félög á meðan þau bíða eftir Leonard.

Leonard er í raun með þessi þrjú NBA-lið í „gíslingu“. Þau hafa veðjað á hann og gætu lent í vandræðum án hans.

Ákvörðun hans mun líka hafa mikil áhrif á NBA-deildina. Lakers gæti orðið rosalegt lið með hann innanborðs enda væri hann þá að spila við hlið þeirra Lebron James og Anthony Davis. Fyrir aðra væri kannski best að hann færi í hin liðin því þá ættu fleiri lið möguleika á NBA-titlinum á næsta tímabili.

Hér má sjá ítarlega grein um ákvörðun Kawhi Leonard á ESPN.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×