Körfubolti

Kevin Durant með nýtt númer á bakinu þegar hann kemur til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant í treyju númer fimm hjá bandaríska landsliðinu.
Kevin Durant í treyju númer fimm hjá bandaríska landsliðinu. Getty/Tim Clayton

Bandaríski körfuboltamaðurinn Kevin Durant tók stóra ákvörðun á dögunum þegar hann ákvað að yfirgefa Golden State Warriors og semja við lið Brooklyn Nets. Hann ætlar að byrja nýtt körfuboltalíf í Brooklyn og skiptir því um númer.

Durant mun spila með vini sínum Kyrie Irving hjá Brooklyn Nets en þó ekki fyrr en tímabilið 2020-21 því næsta tímabil fer væntanlega í það hjá Durant að jafna sig á hásinarsliti.

Kevin Durant heldur upp á 31 árs afmælið sitt í lok september og er búinn að spila í níu tímabil í NBA-deildinni. Hann hefur alltaf spilað í treyju númer 35 en nú verður breyting á því.Eigendur Golden State Warriors tilkynntu það að enginn leikmaður félagsins fengi hér eftir að spila í treyju 35 hjá Golden State. Durant var í þrjú tímabil hjá Golden State og vann tvo meistaratitla.

Hvort sem þessu ákvörðun Kevin Durant tengist því eitthvað þá hefur Durant nú ákveðið að skipta yfir í treyju númer sjö eins og kom fram í þessari Twitter-færslu hans hér fyrir neðan. Hér fyrir neðan má einnig sjá Durant fara aðeins betur yfir þessa ákvörðun sína.

Kevin Durant spilaði þó ekki í treyju númer sjö með bandaríska landsliðinu heldur var hann þá í treyju númer fimm. Durant varð Ólympíumeistari bæði í London 2012 og í Ríó 2016. Hann varð einnig heimsmeistari með liðinu árið 2010.

Durant er með 19,3 stig, 5,4 fráköst og 2,4 stoðsendingar að meðaltali í 44 leikjum með bandaríska landsliðinu en hann er með 27,0 stig, 7,1 frákast og 4,1 stoðsendingu að meðaltali í 849 leikjum í deildarkeppni NBA og 29,1 stig, 7,7 fráköst og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í 139 leikjum í úrslitakeppni NBA.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.