Innlent

Dýr mahóní­klæðning English Pub slapp við vatns­el­ginn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
English Pub er á jarðhæð Austurstrætis 12. Hér má sjá hann að vetri til.
English Pub er á jarðhæð Austurstrætis 12. Hér má sjá hann að vetri til. Vísir/Hanna
Töluvert vatn flæddi á milli fjögurra hæða á Austurstræti 12 í morgun. Nú á tólfta tímanum hefur slökkviliði tekist að þurrka upp þorra vatnsins en áætlað er að það hafi náð upp í ökkla þegar mest var á efri hæðum hússins.

Lekinn er rakinn til þvottavélar á efstu hæð hússins, þar sem skemmtistaðinn Vinnustofu Kjarvals er að finna. Talið er að töluvert vatn hafi lekið úr henni í nótt og fram undir morgun. Arnar Þór Gíslason, einn eigenda barsins English Pub á jarðhæðinni, segir þannig að það hafi ekki verið fyrr en klukkan 7 í morgun sem vatnsskynjari í kjallara hússins hafi gert þeim viðvart.

Hann ásamt öðrum aðstandendum barsins og slökkviliði hafa staðið í ströngu við að dæla upp vatni úr kjallara hússins, þar sem finna má lager og salerni, allar götur síðan. Nú sjái hins vegar fyrir endann á því og gerir hann ekki ráð fyrir öðru en að English Pub opni í hádeginu venju samkvæmt.

Arnar telur mikla mildi að tjónið hafi ekki orðið meira á barnum sjálfum. Eigendur staðarins hafi nýlega ráðist í dýrar framkvæmdir, til að mynda klætt hann allan í mahóní-við, sem hafi nær alfarið sloppið. Svo virðist sem vatnið hafi lekið meðfram stokkum og beint niður í kjallarann, þar sem gifsveggir á lagernum hafi skemmst.

Hálfdán Steinþórsson, einn eigenda Vinnustofu Kjarvals, segir að sama skapi að betur hafi farið en á horfðist. Tjónið á staðnum sé ekki mikið þrátt fyrir vatnsmagnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×