Handbolti

Grímur verður næsti þjálfari Selfoss

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Grímur verður áberandi í þessari stöðu á bekk Selfoss næsta vetur.
Grímur verður áberandi í þessari stöðu á bekk Selfoss næsta vetur. vísir/bára

Þjálfaraleit Íslandsmeistara Selfoss er lokið en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis þá mun Grímur Hergeirsson taka við liðinu af Patreki Jóhannessyni.

Grímur hefur verið viðloðandi handboltann á Selfossi lengi og var meðal annars einn af aðstoðarmönnum Patreks. Grímur sagðist ekkert geta tjáð sig um málið er Vísir heyrði í honum í morgun.

Sonur hans, Hergeir, er auðvitað einn af lykilmönnum liðsins og bróðir Gríms, Þórir, hefur svo gert það heldur betur gott með norska kvennalandsliðið í handbolta.

Heimildir Vísis herma einnig að Þórir Ólafsson muni ekki verða áfram í þjálfarateymi Íslandsmeistaranna en hann ku ætla að snúa sér að öðrum verkefnum.

Grímur lyftir hér bikarnum með Patreki. Nú er hans tími kominn. vísir/vilhelm

Grímur hefur samþykkt að taka starfið að sér og mun að öllum líkindum skrifa undir samning við félagið í kvöld. Á sama tíma verður leikmönnum liðsins tilkynnt um málið og farið yfir komandi verkefni.

Eftir að hafa leitað hófanna víða að arftaka Patreks þá ætla Selfyssingar að veðja á traustan heimamann sem hefur mikið gert fyrir starfið í bænum.

Meistararnir töluðu við ýmsa þjálfara um að taka að sér starfið og þar á meðal þá Arnar Pétursson og Óskar Bjarna Óskarsson samkvæmt heimildum Vísis. Allir gáfu starfið frá sér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.