Handbolti

Horfa ekki út fyrir landsteinana þrátt fyrir lítinn árangur í þjálfaraleit

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Patrekur Jóhannesson kvaddi Selfyssinga með Íslandsmeistaratitli
Patrekur Jóhannesson kvaddi Selfyssinga með Íslandsmeistaratitli vísir/getty
Íslandsmeisturum Selfoss gengur illa að finna arftaka Patreks Jóhannessonar, en enn er ekkert að frétta í þjálfaraleit félagsins.

Patrekur Jóhannesson yfirgaf Selfoss í lok tímabilsins til þess að taka við danska liðinu Skjern. Selfoss var búið að semja við Hannes Jón Jónsson en hann fékk tilboð frá þýska félaginu Bietigheim sem hann samþykkti með leyfi Selfyssinga.

Í samtali við Vísi í dag sagði Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar, að ekkert væri að frétta í þessum málum. 

Áður hafði Þórir sagt að „stundum virkar Hellisheiðin löng í aðra áttina,“ og mátti lesa úr þeim orðum að erfiðlega gengi að sannfæra menn á höfuðborgarsvæðinu að taka við starfinu.

Þrátt fyrir að lítið hafi gengið eru Selfyssingar ekki farnir að horfa erlendis.

„Á þessum tíma höfum við skoðað ýmislegt og velt mörgu fyrir okkur, en það væri nú svolítið skrítið þegar Íslendingar eru þjálfarar bestu liða í nágrenni við okkur og topp landsliða ef við þurfum svo að fara að sækja erlendis eftir þjálfara,“ sagði Þórir í dag.

„Við erum ekkert farnir að örvænta.“

Þrátt fyrir að enn séu mánuðir til stefnu fer þó að styttast í annan endann á tímanum sem Selfyssingar hafa því þeir munu hefja leik í Meistaradeild Evrópu í kringum mánaðarmótin ágúst-september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×