Enski boltinn

Jóhann Berg einn af fáum sem náðu að sóla nýja bakvörð Man.United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu. Getty/Oliver Hardt

Aaron Wan-Bissaka verður væntanlega orðinn leikmaður Manchester United áður en sólarhringur er liðinn en enskir miðlar sögðu frá því í dag að United hafi náð samkomulagi við Crystal Palace um kaup á þessum efnilega bakverði.

Wan-Bissaka er aðeins 21 árs gamall og sló í gegn hjá liði Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Hann er nú talinn í hópi bestu hægri bakvarða deildarinnar.

Aaron Wan-Bissaka var sá varnarmaður sem náði flestum tæklingum á tímabilinu í ensku deildinni og það var allt annað en auðvelt að komast fram hjá honum.

Aðeins níu leikmönnum tókst að komast fram hjá Aaron Wan-Bissaka á allri leiktíðinni en í þeim hópi var leikmaður sem við Íslendingar þekkjum vel.Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson var nefnilega einn af þessum níu sem tókst að komast fram hjá Aaron Wan-Bissaka á 2018-19 tímabilinu.

Jóhann Berg náði því einu sinni en aðeins einn af umræddum níu leikmönnum tókst að endurtaka leikinn og komast aftur fram hjá Wan-Bissaka. Það var Leroy Sané hjá Manchester City.

Það er ekki auðvelt að stoppa Jóhann Berg þegar hann kemst á ferðina. Þetta sýndi hann sem dæmi í 1-0 sigurleiknum á móti Albaníu en eina mark leiksins skoraði Burnley-maðurinn eftir laglegan einleik.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.