Enski boltinn

Jóhann Berg einn af fáum sem náðu að sóla nýja bakvörð Man.United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu. Getty/Oliver Hardt
Aaron Wan-Bissaka verður væntanlega orðinn leikmaður Manchester United áður en sólarhringur er liðinn en enskir miðlar sögðu frá því í dag að United hafi náð samkomulagi við Crystal Palace um kaup á þessum efnilega bakverði.

Wan-Bissaka er aðeins 21 árs gamall og sló í gegn hjá liði Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Hann er nú talinn í hópi bestu hægri bakvarða deildarinnar.

Aaron Wan-Bissaka var sá varnarmaður sem náði flestum tæklingum á tímabilinu í ensku deildinni og það var allt annað en auðvelt að komast fram hjá honum.

Aðeins níu leikmönnum tókst að komast fram hjá Aaron Wan-Bissaka á allri leiktíðinni en í þeim hópi var leikmaður sem við Íslendingar þekkjum vel.





Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson var nefnilega einn af þessum níu sem tókst að komast fram hjá Aaron Wan-Bissaka á 2018-19 tímabilinu.

Jóhann Berg náði því einu sinni en aðeins einn af umræddum níu leikmönnum tókst að endurtaka leikinn og komast aftur fram hjá Wan-Bissaka. Það var Leroy Sané hjá Manchester City.

Það er ekki auðvelt að stoppa Jóhann Berg þegar hann kemst á ferðina. Þetta sýndi hann sem dæmi í 1-0 sigurleiknum á móti Albaníu en eina mark leiksins skoraði Burnley-maðurinn eftir laglegan einleik.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×