Skoðun

Kynslóðin sem neitar að hætta að djamma

Rebekka Karlsdóttir skrifar
Þegar kynslóðirnar á undan okkur horfðu til framtíðar sáu þau fyrir sér langt líf með fjölskyldu sinni, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Þau sáu fyrir sér framtíð barna sinna á sama hátt og þeirra eigin, nema betri - meiri lífsgæði og betra samfélag. Þegar ég horfi fram á veginn, verandi 22 ára háskólanemi, hef ég því miður ekki sömu framtíðarsýn og kynslóð foreldra minna hafði á sínum tíma. Þegar ég hugsa um framtíðina birtast mér hörmungar og hamfarir. Matarskortur, vatnsskortur og straumur flóttafólks. Ég stend frammi fyrir þeirri ákvörðun að velja nám og starfsvettvang að því loknu en óttast að það verði of seint að grípa í taumana þegar ég fæ skírteinið í hendurnar. Allt útaf því að lítill hluti mannkynsins er búinn að vera á alltof löngu fylleríi; taumlausu neyslu-djammi þar sem markaðsöflin hafa leitt okkur áfram í ofneyslu á kostnað umhverfisins. Stjórnvöld og fyrirtæki neita að horfast í augu við ástandið og takast á við afleiðingarnar og ætla frekar að láta næstu kynslóðir takast á við þynnkuna sem mun fylgja.

Loftslagskvíði er nokkuð nýr af nálinni en það er raunverulegur ótti sem flest ungt fólk upplifir með einum eða öðrum hætti. Út frá minni reynslu lýsir loftslagskvíði sér sem óstjórnlegur kvíði gagnvart framtíðinni vegna hamfarahlýnunar. Kvíði gagnvart því að ekki verði gripið til aðgerða - að mamma og pabbi neiti að hætta að djamma - og afleiðingarnar verði gífulegar og óyfirstíganlegar. Á örfáum árum hefur ímyndin um framtíðina snúist frá háþróuðum tækniheimi með fljúgandi bílum yfir í heim hamfara og ungt fólk fyllist kvíða yfir því að þurfa að takast á við þetta.

Við unga fólkið getum farið í verkföll, skrifað greinar og látið í okkur heyra á samfélagsmiðlum, en það er ríkisstjórnin, stjórnvöld og fyrirtækin í landinu sem bera ábyrgðina og hafa valdið til að bregðast strax við. Þar er Háskóli Íslands engin undantekning sem einn stærsti vinnustaður landsins. Háskólinn sem menntastofnun á að vera framsýn stofnun og þar með leiðandi í umhverfismálum. Stúdentar vilja ekki að Háskólinn láti á sér standa heldur geri raunverulegar breytingar sem skapa betri framtíð fyrir námsfólk sem og aðra. Stefna Röskvu felur í sér margar leiðir til úrbóta fyrir umhverfið, allt frá því að auka verulega hlutfall vegan máltíða í Hámu og hætta notkun á einnota plastumbúðum yfir í að koma upp hjólaleigu á Háskólasvæðinu. Við viljum græna stúdentagarða sem bjóða upp á betri flokkun og lágvöruverslun fyrir stúdenta sem myndi stuðla verulega að sjálfbæru háskólasamfélagi. Við þurfum róttækar breytingar og Háskólinn er í kjör aðstæðum til að taka af skarið, vera fyrstur heim af djamminu og grípa til aðgerða.

Höfundur er forseti Röskvu og varafulltrúi í Stúdentaráði




Skoðun

Sjá meira


×