Handbolti

Logi ósáttur við frammistöðuna í Grikklandi: „Hryllingur að horfa á þetta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk gegn Grikkjum.
Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk gegn Grikkjum. vísir/vilhelm
Íslenska karlalandsliðið í handbolta var stálheppið að fá stig gegn Grikklandi á útivelli í undankeppni EM 2020 í dag. Ísland var 26-28 undir þegar lokamínútan gekk í garð en bjargaði stigi með því að skora tvö síðustu mörk leiksins. Lokatölur 28-28.

Íslenska liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 12-15, en frammistaða þess í seinni hálfleik var afar slök.

Fyrrverandi landsliðsmaðurinn Logi Geirsson lét gamminn geysa á RÚV eftir leikinn í dag.

„Manni er bara nóg boðið. Þetta var bara of mikið af rugli. Þetta er ekki boðleg frammistaða. Hver er andlegur styrkur liðsins í þessari stöðu? Ég veit við erum með marga leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref en stýringin á liðinu og allt var hreinasta hörmung,“ sagði Logi.

„Vörnin virkaði ekki. Við vorum ekki með neina ferska fætur. Janus Daði [Smárason] sem var mikilvægasti leikmaður þegar Álaborg varð danskur meistari um síðustu helgi spilaði ekkert. Hann er ótrúlega sterkur á fótunum og hefði tætt þessa gæja í sig. Það var svo margt sem var að. Þetta var hörmuleg frammistaða.“

Logi sagði að úrræðaleysi íslenska liðsins í leiknum í dag hafi verið algjört.

„Það var ekkert plan B. Það var bara plan A. Það var hryllingur að horfa á þetta. Aron [Pálmarsson] hefði mátt vera miklu betri. Ég hefði viljað fá miklu meira frá honum þótt hann hafi aðeins vaknað undir lokin. Vörnin var léleg, við náðum engum hraðaupphlaupum og engri seinni bylgju. Þetta var rosalega vont. Þetta er ekkert firmamót í Sandgerði. Þetta er landsliðið,“ sagði Logi.

Ísland mætir Tyrklandi í Laugardalshöllinni í lokaumferð undankeppninnar á sunnudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×