Körfubolti

Gjörsamlega missti það eftir að hafa fengið högg á viðkvæman stað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Calvin Abueva dansaði upp á borði eftir þetta ljóta brot sitt. Hann er landsliðsmaður Filippseyja.
Calvin Abueva dansaði upp á borði eftir þetta ljóta brot sitt. Hann er landsliðsmaður Filippseyja. Skjámynd/Youtube/ESPN5
Filippíski körfuboltamaðurinn Calvin Abueva er væntanlega á leiðinni í langt bann eftir framkomu sína í körfuboltaleik í PBA deildinni um helgina.

Calvin Abueva lenti upp á kant við bandaríska körfuboltamanninn Terrence Jones í leik TNT KaTropa og Phoenix Pulse.

Terrence Jones átti flottan háskólaferil og spilaði fyrir nokkur lið í NBA-deildinni. Hann er nú kominn til TNT KaTropa á Filippseyjum.

Það hafði ýmislegt eflaust gengið á í samskiptum þeirra félaga þegar komið var fram í fjórða leikhlutann í þessum leik.

Terrence Jones og félagar í TNT KaTropa voru með örugga forystu en Calvin Abueva var ekki búinn að gefast upp.

Eftir smá samstuð á milli þeirra virtist Terrence Jones slá Calvin Abueva á viðkvæman stað.

Calvin Abueva engdist um af sársauka á gólfinu en harkaði af sér og hélt áfram. Það sem gerist næst sýndi það aftur á móti að hausinn á honum var algjörlega farinn.

Abueva gaf Terrence Jones síðan vænt högg eftir að Jones hafði náð frákasti í sókninni á eftir. Strax á eftir hoppaði Abueva síðan upp á borð og dansaði eggjandi í átt að Jones.

Dómarar leiksins ráku Abueva út úr húsi og Terrence Jones endaði leikinn með 40 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Abueva var með 19 stig og 11 fráköst þegar hann var sendur í sturtu.

Það má sjá öll þessi skrautlegu samskipti þeirra í fjórða leikhlutanum í myndbandinu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×