Körfubolti

Vilja fá meiri pening frá Garðabæ fyrir góðan árangur

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Meistaraflokkur Álftaness í körfubolta varð Íslands- og deildarmeistari í 2. deild en liðið tapaði einungis tveimur leikjum á tímabilinu.
Meistaraflokkur Álftaness í körfubolta varð Íslands- og deildarmeistari í 2. deild en liðið tapaði einungis tveimur leikjum á tímabilinu. Fréttablaðið/Anton
Bæjarráði Garðabæjar barst bréf frá körfuboltadeild Álftaness þar sem beðið er um að bærinn borgi 70 prósent af komandi útgjöldum. Álftanes fór upp í 1. deild og styrkti bærinn deildina um milljón. Með auknum árangri kemur aukinn kostnaður og biður deildin nú bæinn um 4,4 milljónir af 6,3 milljóna kostnaðaráætlun. Það sem upp á vantar ætlar deildin að safna sjálf.

Meistaraflokkur UMFÁ karla í körfubolta varð Íslands- og deildarmeistari í 2. deild en liðið tapaði aðeins tveimur leikjum á tímabilinu. Liðið tryggði sér þátttökurétt í 1. deild að ári en fyrir aðeins tveimur árum spilaði liðið í 3. deild. Samkvæmt bréfinu hefur félagið sýnt ráðdeild og tekist með litlum rekstrarkostnaði að halda úti öflugu starfi með miklum árangri. Er bent á að verulega munaði um framlag Garðabæjar til körfuknattleiksdeildarinnar sem hljóðaði upp á eina milljón króna þegar liðið komst upp í 2. deild, en fram að því hafði liðið ekki fengið fjárhagsaðstoð frá bænum heldur aðstöðu.

Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar hefur unnið fjárhagsáætlun fyrir komandi ár en bent er á það í bréfinu til bæjarins að leikir í 1. deild eru mun fleiri, æfingar og þjálfun umfangsmeiri, dómarakostnaður hærri og meiri kröfur til leikmanna. Fer stjórnin fram á viðauka við núgildandi samning þar sem framlag til körfunnar mun aukast.

Deildin telur það vera körfuboltanum í Garðabæ til mikilla heilla að öflugt lið spili í 1. deild. Samstarfsfletir aukist og möguleikar á þróun fyrir körfubolta í bænum. Þannig auki það líkur á að góður árangur náist ef bæði lið Álftaness og Stjörnunnar haldi úti metnaðarfullu starfi í 1. deild og Domino’s-deildinni. Bæjarráðið vísaði bréfinu til umfjöllunar aðalstjórnar Ungmennafélags Álftaness og íþrótta- og tómstundaráðs sem og til nánari skoðunar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×