Handbolti

Arnar Freyr í liði ársins í Svíþjóð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson fer til GOG í sumar.
Arnar Freyr Arnarsson fer til GOG í sumar. Getty/Carsten Harz

Arnar Freyr Arnarsson, línumaður íslenska landsliðsins í handbolta, var valinn í lið ársins í sænsku úrvalsdeildinni sem tilkynnt var í dag.

Arnar Freyr skoraði 71 mark í 32 leikjum fyrir stórlið Kristianstad sem mistókst að vinna Svíþjóðarmeistaratitilinn fimmta árið í röð en liðinu var sópað í sumarfrí í undanúrslitum gegn Alingsås.

Línumaðurinn stóri og stæðilegi úr Safamýrinni var að spila sína síðustu leiktíð fyrir Kristianstad en hann heldur í sumar til GOG í Danmörku þar sem hann verður samherji Óðins Þórs Ríkharðssonar og Viktors Gísla Hallgrímssonar en sá síðarnefndi er á leið í atvinnumennskuna frá Fram.

Arnar Freyr gekk í raðir Kristianstad frá Fram sumarið 2016 og hefur verið fastamaður í liðinu allar götur síðan. Hann vann Svíþjóðarmeistaratitilinn árið 2017 og 2018 og þá hefur hann spilað fjölmarga leiki fyrir liðið í Meistaradeildinni.

Hann er eini Íslendingurinn í úrvalsliðinu en Ólafur Guðmundsson, stórskytta Kristianstad, og markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson hafa einnig staðið sig vel á tímabilinu.

Ágúst Elí og félagar í Sävehof eru 1-0 yfir í úrslitaeinvíginu gegn Alingsås en liðin mætast öðru sinni á heimavelli Sävehof í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.