Bíó og sjónvarp

Disney vinnur að mynd eftir Knights of the Old Republic

Samúel Karl Ólason skrifar
Darth Malak og Darth Revan.
Darth Malak og Darth Revan.
Aðdáendur tölvuleiksins vinsæla Star Wars: Knights of the Old Republic hafa tilefni til að fagna. Disney er sagt vera að skoða að gera kvikmyndaþríleik eftir leiknum sem kom út árið 2003 og þykir einn af bestu tölvuleikjum Star Wars söguheimsins. Samkvæmt heimildum Buzzfeed er Laeta Kalogridis að skrifa handrit fyrir mögulega kvikmynd en hún er hvað best þekkt fyrir skrif sín við Shutter Island, Altered Carbon og Terminator Genisys.

KOTOR er hlutverkaleikur þar sem spilarar setja sig í spor hermanns Gamla lýðveldisins sem tekur virkan þátt í baráttunni gegn Sith-herranum Darth Malak, fyrrverandi lærisveini Darth Revan. Leikurinn gerist um fjögur þúsund árum fyrir Star Wars: A New Hope og býr yfir mjög góðri og áhugaverðri sögu.

Blaðamaður MTV ræddi við Kathleen Kennedy, yfirmann Lucasfilm, í apríl og var hún sérstaklega spurð út í KOTOR og möguleikann á kvikmynd. Þá sagði hún starfsmenn Lucasfilm vera ítrekað að velta því fyrir sér og það væri til skoðunar. Hún sagðist þó ekki vita hvernig það ferli myndi enda.

Nú virðist sem að Kalogridis sé að skrifa handritið en það þarf þó ekki að þýða að af kvikmyndunum verði.

Eins og staðan er núna kemur The Rise of Skywalker, eftir J.J. Abrams út í desember. Næsta kvikmynd söguheimsins á að koma út um jólin 2022. Sú mynd verður eftir þá David Benioff og D.B. Weiss, forsvarsmenn Game of Thrones og verður sú fyrsta í nýjum þríleik þeirra. Leiddar hafa verið líkur að því að mögulega gerist sá þríleikur einnig á tímum Gamla lýðveldisins.

Ekki liggur fyrir hvenær þríleikur Rian Johnson, sem gerði The Last Jedi, á að líta dagsins ljós.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×