Skoðun

Fjárfesting á besta tíma

Sveinn Fr. Sveinsson skrifar
Seðlabanki Íslands birti spá um hagvöxt í vikunni. Spáð er 0,4% samdrætti á árinu sem er mikil breyting frá fyrri spá um 1,8% hagvöxt. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2010 sem landsframleiðslan dregst saman milli ára. Vegur þar þungt 6,7% samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu. Bankinn spáir því einnig að atvinnuleysi muni aukast nokkuð og að það verði tæplega 4% á árinu. Það muni því draga hratt úr þeirri spennu sem hafi safnast upp á undanförnum árum. Til að mæta samdrætti þarf að fjárfesta og til að það sé hægt, þurfa fyrirtæki að hafa borð fyrir báru.

Við þessar aðstæður ætlar ríkisstjórnin að skattleggja fiskeldi sérstaklega umfram aðrar atvinnugreinar um 3,5%. Skatturinn reiknast af söluverðmæti afurða og skiptir þá engu hvort hagnaður er af rekstrinum eða ekki. En fiskeldisfyrirtæki á Íslandi eru ekki rekin með hagnaði í dag. Þessi sérskattur kemur til viðbótar við fyrirhugaða 67% hækkun á umhverfisgjaldi, aflagjöld og vörugjöld auk þeirra skatta og gjalda sem önnur fyrirtæki í landinu greiða.

Fiskeldi er ung grein og framleiðslan er brot af framleiðslu helstu samkeppnislanda, á borð við Færeyjar og Noreg. Mikil fjárfesting er fram undan til þess að greinin nái stærðarhagkvæmni og nái að snúa viðvarandi taprekstri í hagnað.

Þegar álögur á fyrirtæki eru annars vegar verða yfirvöld að hafa í huga að ef þrengt er um of að getu þeirra til fjárfestinga, getur það haft ófyrirséð áhrif. Áhrif sem eru langtum kostnaðarsamari en nemur þeim ágóða sem leiðir af aukinni skattheimtu. En stundum mætti staldra við og spyrja; er hægt að fá meiri tekjur með lægri sköttum, með því að hlúa að skattstofninum?

Gjörbreyting á skattheimtu í greininni mun minnka áhuga fjárfesta. Ár samdráttar er ekki tímapunkturinn til að segja nei við fjárfestingu í atvinnuvegum landsins. Sú staðreynd byggist á klassískri hagfræði.




Skoðun

Sjá meira


×