Skoðun

Er byltingin að éta börnin sín?

Sigurður Kristinn Egilsson skrifar
Það stefnir í harðar kosningar á ársfundi Frjálsa. Samstaða virðist þó um flestar umbætur sem unnið hefur verið að af hálfu stjórnar. Átakapunkturinn er spurningin um það hvort stjórnin ein eða sjóðfélagar skuli taka ákvörðun um rekstraraðila. Mín afstaða er sú að farsælast sé að sjóðfélagar ráði í rafrænum kosningum.

Síðasti ársfundur Frjálsa var gríðarlega fjölmennur miðað við fyrri fundi. Samt sem áður voru mættir fundarmenn, með eigin atkvæði og umboð, aðeins með umráð yfir tæplega 6% af mögulegu atkvæðamagni sjóðfélaga. Óhætt er að fullyrða að stór hluti af atkvæðamagni var fenginn með smölun umboða á skipulagðan hátt.  Út frá lýðræðislegu sjónarmiði er varla hægt að halda því fram að stjórn sem kjörin er með þessu hætti hafi sterkt umboð til þess að taka meiriháttar stefnumarkandi ákvarðanir. Það er því eðlilegt að gera kröfu til þess að hún leggi hverju sinni stórákvarðanir í dóm sjóðfélaga á ársfundi.

Hitt væri enn betra að viðhafa rafrænar kosningar. Þar er fyrir hendi góður vilji og ég er sannfærður um að það er framtíðin hjá Frjálsa þótt auðvitað þurfi að undirbúa slíkt kjör rækilega. Óskað er eftir heimild ársfundar til þess að setja slíkt ferli af stað. Í rafrænni kosningu geta sjóðfélagar hvar sem þeir eru staddir og án þess að láta trufla sig af áreyti, greitt atkvæði við tölvu sína og haft áhrif á niðurstöður. Ég tel að við meiriháttar ákvarðanir í Frjálsa sé ekki óraunsætt að um 30% af atkvæðamagni sjóðfélaga myndi skila sér í rafrænum kosningum. Það er mikill munur á 6% og 30% og líklegra að síðarnefnda talan endurspegli raunverulegan vilja sjóðfélaga.

Af þessari ástæðu er ég sem sjóðfélagi á móti því að veita stjórn allsherjarumboð til þess að vera einráð um stórákvarðanir. Stjórn sem kosin er með 6-10% atkvæða með smölun atkvæða getur ekki tekið meiriháttar ákvarðanir fyrir hönd sjóðfélaga.   Þá væri byltingin farin að éta börnin sín.

Höfundur er sjóðfélagi í Frjálsa lífeyrissjóðnum.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×