Skoðun

Höfnum ekki sársaukanum

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Nú hefur Alþingi samþykkt frumvarp um þungunarrof að undangenginni dæmigerðri íslenskri þjóðfélagsumræðu. Andstæðum hefur verið stillt upp með femínista og sérfræðinga á sviði heilbrigðismála á öðrum væng en Ingu Sæland, Agnesi biskup og trúað fólk á hinum. Samhliða hefur þess verið gætt að halda framlagi ÖBÍ og Siðfræðistofnunar HÍ utan við opinbera umræðu.

Á meðan Siðfræðistofnun lagði til að jöfnum höndum yrði horft á þrjá þætti; sjálfsákvörðunarrétt kvenna, siðferðilega stöðu fósturs í móðurkviði og viðhorf til fötlunar, hefur umræðan hverfst um fyrsta atriðið.

Ég held að öll þjóðin geti tekið undir þá afstöðu Siðfræðistofnunar að þungunarrof sé sársaukamál sem þurfi vandaða og opna umræðu. Enn fremur segir þar: „Ferlið sem fylgir síðkomnu þungunarrofi er erfitt líkamlega og andlega og því fylgir mikil sorg. Þegar staðið er andspænis þessum valkostum leggur fólk mat á upplýsingar um fóstrið og notar þær til að spá fyrir um lífsgæði verðandi barns, foreldra og fjölskyldu. Sú túlkun er ekki einungis læknisfræðileg.“

Umliðna áratugi hefur sjötta hverju fóstri verið eytt hér á landi. Það er sorgarefni allrar þjóðarinnar sem ekki verður leyst með neinni löggjöf. Við þurfum að lyfta upp sjálfsákvörðunarrétti kvenna og hafna allri skömmun. En jafnframt verðum við að horfast í augu við hið háa flækju- og sársaukastig þessara mála. Stundum standa mæður og feður frammi fyrir afarkostum og treysta sér ekki til að taka við ófæddum börnum. Ég votta öllum sem fundið hafa sig knúin til að stíga það skref samúð mína. Við berum öll ábyrgð á að bæta kjör barna, auka valkosti fólks og gefa verðandi foreldrum skýr skilaboð um samstöðu.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.