Körfubolti

Israel Martin tekur við Haukaliðinu af Ívari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Israel Martin fagnar bikarmeistaratitlinum í Laugardalshöllinni árið 2018.
Israel Martin fagnar bikarmeistaratitlinum í Laugardalshöllinni árið 2018. Vísir/Hanna
Spánverjinn Israel Martin verður næsti þjálfari meistaraflokks Hauka í Domino´s deild karla í körfubolta en Körfuknattleiksdeild Hauka og Israel Martin hafa komist að samkomulagi að Israel þjálfi Hafnarfjarðarliðið næstu þrjú árin.

Haukarnir segja frá þjálfarráðningu sinni á heimasíðu félagsins í dag.

Israel Martin tekur liðinu af Ívari Ásgrímssyni sem hefur stýrt Haukaliðinu frá tímabilinu 2012 til 2013 þegar liðið vann sér aftur sæti í efstu deild.



Israel Martin þekkir vel til Domino´s deildarinnar enda hefur hann þjálfað lið Tindastóls undanfarin tímabil. Hann kom Stólunum tvisvar í lokaúrslitin og gerði liðið að bikarmeisturum 2018.

Stefán Þór Borgþórsson verður nýr framkvæmdastjóri Körfuknattleiksdeildar Hauka og mun sinna daglegum rekstri deildarinnar. Stefán þekkir umhverfið á Ásvöllum vel enda uppalinn Haukamaður. Hann hefur bæði spilað og þjálfað hjá félaginu og sat í stjórn kkd. Hauka frá 2002 þar til hann hóf að starfa hjá Körfuknattleikssambandinu árið 2008.

Vilhjálmur Steinarsson verður áfram í þjálfarateymi Hauka og mun fyrst og fremst sjá um styrktarþjálfun liðsins. Vilhjálmur er einn fremsti styrktarþjálfari landsins þegar kemur að körfuknattleik og hefur gert frábæra hluti með Haukaliðið. Þá er Vilhjálmur einnig í styrktarþjálfarateymi A landsliðs karla fyrir komandi verkefni hjá þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×