Erlent

Borgar­stjóri New York setur stefnuna á Hvíta húsið

Atli Ísleifsson skrifar
Hjónin Chirlane McCray og Bill de Blasio.
Hjónin Chirlane McCray og Bill de Blasio. Getty
Bill de Blasio, borgarstjóri New York borgar, hyggst greina frá framboði sínu til forseta Bandaríkjanna á morgun. Frá þessu þessu greinir talsmaður framboðs de Blasio í samtali við bandaríska fjölmiðla í kvöld.

De Blasio mun þar með bætast í hóp á þriðja tugs manna sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í kosningunum á næsta ári og þar með skora Donald Trump forseta á hólm.

De Blasio verður gestur í morgunþættinum Good Morning America þar sem hann verður í beinni útsendingu frá Times-torgi í New York, ásamt eiginkonu sinni, Chirlane McCray. De Blasio mun svo fara í fjögurra daga ferð um Iowa og Suður-Karólínu ásamt McCray sem hefur verið náinn ráðgjafi hans allt frá því að hann tók við embætti borgarstjóra New York fyrir tæpum sex árum.

NBC News segir að de Blasio muni í baráttu sinni leggja áherslu á frjálslynd gildi sín og afrek sín sem borgarstjóri, meðal annars hækkun lágmarkslauna, auk þess að dregið hafi úr glæpum í borginni.

Hinn 58 ára de Blasio tók við embætti borgarstjóra New York af Michael Bloomberg í ársbyrjun 2014.

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, hefur verið að mælast með mest fylgi meðal kjósenda Demókrata í könnunum um hver eigi að vera forsetaframbjóðandi flokksins 2020.


Tengdar fréttir

Biden tekur mikinn kipp

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur tekið mikinn kipp í skoðanakönnunum frá því hann tilkynnti formlega um framboð sitt í forvali Demókrata fyrir forsetakosningarnar 2020 í síðustu viku ef marka má nýja könnun frá CNN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×