Körfubolti

Pabbi Steph Curry vildi ekki að hann færi til Golden State á sínum tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Feðgarnir Stephen Curry og Dell Curry.
Feðgarnir Stephen Curry og Dell Curry. GettyKevin C. Cox
Stephen Curry mun væntanlega spila allan feril sinn með Golden State Warriors og fá sitt sæti í hóp bestu leikmanna NBA-deildarinnar í körfubolta frá upphafi.

Kappinn er að flestra mati besta þriggja stiga skytta sögunnar. Hann mun eignast flest metin sem snúa af þristum og á mikinn þátt í því að þriggja stiga skotið er nú miklu „betra“ skot en það var áður.





Stephen Curry hefur farið á kostum með liði sínu í síðustu leikjum Warriors í úrslitakeppni NBA-deildarinnar og var með 37 stig og 8 stoðsendingar í nótt þegar Golden State komst í 2-0 á móti Portland Trail Blazers í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Curry hefur skorað 36 og 37 stig í fyrstu tveimur leikjunum og hafði áður gert út af við Houston Rockets í síðustu tveimur leikjum undanúrslitanna eftir að Kevin Durant meiddist.

Curry hefur minnt vel á sig og snilli sína í undanförnum leikjum og ýtt undir þá skoðun margra að hann hafi hugsað um hag liðsins frekar en hag sinn þegar Durant mætti á svæðið. Curry var tilbúinn að fórna sínum leik og leyfa Kevin Durant að leiða liðið. Nú er hins vegar þörf á því að Curry taki að sér aðalhlutverkið og hann hefur tekið því fagnandi.





Stephen Curry hefur átt mögnuð tíu tímabil með Golden State Warriors og er á góðri leið með að verða NBA-meistari í fjórða sinn með liðinu. Curry varð 31 árs í mars en hann gerði fimm ára samning í júlí 2017 og fær fyrir hann 201 milljón dollara eða tæpa 25 milljarða íslenskra króna.

Það voru samt ekki allir í fjölskyldunni ánægðir þegar Golden State Warriors valdi Stephen Curry með sjöunda valrétti í nýliðavalinu árið 2009.

Dell Curry, faðir Steph, lék sjálfur í NBA-deildinni í sextán ár og ætti því að hafa vit á NBA-deildinni. Í nýju viðtali við pabbann þá viðurkenndi Dell að hann vildi ekki að Steph Curry færi til Golden State á sínum tíma.

Dell Curry taldi Golden State Warriors liðið ekki spila bolta sem hentaði syninum. Annað kom á daginn, Golden State hlustaði ekki á karlinn og Dell gæti ekki verið ánægðari í dag með feril Stephen Curry. Hér fyrir neðan má sjá Dell Curry ræða Steph og nýliðavalið 2009.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×